Friday, February 11, 2011

Raunablogg

Það er léttir að þessi skólavika sé nú liðin undir lok, alltof mikið búið að ganga á síðustu daga og gott að vera komin í tveggja daga frí. Gærdagurinn var vægast sagt erfiður. Ég var á leið heim úr strætó með níðþunga poka, var að kaupa 10 kíló af fóðri fyrir Fróða. Ég var í mestu vandræðum og þá kemur einhver náungi sem þykist vera voða vinalegur og vill fá að halda á einum pokanum fyrir mig. Ég sá framá að ég yrði í erfiðleikum með að koma þessu öllu heim svo ég þáði hjálp smá spotta. Þegar ég vildi svo fá pokann aftur tók hann það ekki í mál. Hann ætlaði að fá að koma með mér inní íbúðina mína og þyggja kaffibolla. Til að gera langa sögu stutta varð hann æfur þegar ég sagði þvert og ákveðið NEI við þeirri bón. Svo ákveður hann að ástæða þess að ég hleypi honum ekki inn sé húðliturinn hans og byrjar að kalla mig rasista og ýmsum öðrum misfögrum nöfnum. Hann hækkar röddina og ég hélt á tímabili að hann ætlaði að ráðast á mig. Hann var komin hálfa leið upp tröppurnar að útidyrahurðinni og var mjög ógnandi. Ég sagði honum að fara og sem betur fer byrjaði hann að labba í burtu,  blótandi og kallaði á mig að ég ætti að fara til helvítis, sem ég afþakkaði, og lét sig sem betur fer hverfa á endanum. En þessi brjálæðingur veit núna hvar ég á heima. Fyrir skemmstu var stúlka lamin hérna í hverfinu fyrir að segja nei við svona gaur. Þar fór styðsta leiðin heim, nú verð ég að taka annan strætó heim til að þurfa ekki að labba í gegnum blokkirnar þar sem þessi gaur býr.
Til að toppa daginn beið mín email frá skólanum að kalla mig á fund varðandi Fróða. Beyglan sem er yfir á bókasafninu vildi ekki að ég fengi að hafa hann þar, námsráðgjafinn sem á að sjá um þetta mál fyrir mig lét hana ekki vita að ég mætti vera með hann þar og allt fór í háaloft. Ég er þó með vottorð undirritað af námsráðgjafanum að ég megi vera með Fróða allstaðar nema í mötuneytinu, bara hvergi lausan. Námsráðgjafinn reyndi að halda fram að hún hefði skrifað að hann þyrfti alltaf að vera í tösku en ég gat sýnt henni þetta svart á hvítu. Hún sagði að nú þyrfti ég alltaf að vera með hann í tösku enda hefði hún meint það þegar hún skrifaði að hann mætti ekki vera laus????? Þvílíkur haugur af kjaftæði, ég átti ekki orð. Auk þess man ég greinilega að við ræddum einungis um að hann þyrfti að vera í taum.
Ég er alveg komin með nóg af þessu skipulags og samskiptaleysi í skólanum sem ég þarf að gjalda fyrir. En elsku bestasti Fróðinn minn gerir mér lífið erfitt þessa dagana. Dýralæknakostnaðurinn útaf bakinu hans er meira en ég ræð við akkúrat núna. Auk þess veit ég ekki hvað ég á að gera við hann þegar ég fer í praksís í næsta mánuði. Ég elska hann svo óendanlega mikið, en það er orðið ofsalega erfitt að láta þetta allt saman ganga upp. Ég verð að treysta Guði að hann sé með einhverja lausn, því þetta getur ekki haldið svona áfram ;(
Þetta varð alveg óvart rosalega neikvætt blogg, en því miður er lífið frekar erfitt þessa dagana. Á morgun stefni ég þó á að hitta Safiyyu og Halldóru á Majorstuen og um kvöldið kemur Miriam og kannski Camilla líka í heimsókn að horfa á Prince of Egypt í flotta sjónvarpinu mínu!
Vonandi fæ ég líka eitthvað að heyra í Fjólu minni sem fyrst, núna þegar netið er loksins komið í lag :)

Monday, February 07, 2011

Meiri snjór

Þá er viðburðarrík helgi liðin undir lok og vikan tekin við. Netsambandið hefur verið vægast sagt skrautlegt undanfarna daga, en vonandi fæ ég bætt úr því í vikunni.
Ég smellti af nokkrum myndum um helgina og læt þær tala sínu máli. 
Fróði og Emma fengu að leika sér í rúminu mínu og nutu þess í botn.
Á laugardaginn fórum við Halldóra á hundasýningu í Hellerudsletta og ég tók örfáar myndir.
Þessi var ekkert smá afslappaður á snyrtiborðinu.
 Ég er alveg rosalega hrifin af þessum sæta hvolpi og smellti mynd af honum inní hring.
Á sunnudag fór ég í ægilega skemmtilega fjölskyldumessu og svo í kaffi til Halldóru og Ingvars. Fróðinn minn er soldið að koma til, orðinn betri í bakinu finnst mér. Í kvöld fór ég út með voffana í smá miðnætturgöngu í nýföllnum snjó og þá fékk Fróði að hlaupa laus í fyrsta sinn í langan tíma.
Ég fór uppí íbúð aftur að ná í myndavélina, enda ekki annað hægt en að smella af nokkrum í svona veðri. Vildi ég gæti bara skrópað í skólann á morgun og verið úti allan daginn með voffana.


Ég og María systir erum svo að stefna á að fara og sjá Cesar Milan í Osló spektrum í maí! (Fjóla, þér er að sjálfsögðu boðið með :p)
Klukkan er orðin alltof margt og ég fer í tvöföldan GT tíma á morgun svo ég bíð góða nótt! 











Tuesday, February 01, 2011

Loksins blogg!

Ég ákvað að byrja að blogga aftur, svoleiðis að ef einhverjar hræður þarna úti hafa ennþá áhuga á að fylgjast með hvað er að gerast hjá mér þessa dagana. Mamma kann ekki á fésið og kvartar undan myndaleysi svo ég mun láta það fylgja. Kannski það minnki líka aðeins fjarlægðina við hana Fjólu mína, sem ég fæ að fylgjast svo vel með á blogginu hennar. 
Ég er á lokaönninni í Bachelor náminu svo það er mikil pressa og nóg að gera. Hebreskan er einstaklega áberandi og því miður er kennslan ekki góð og námsárangur eftir því.
Emma verður bráðum 14 mánaða og það er nokkuð útséð að hún verður ekki mikið meira en písl þar sem hún vegur ennþá bara 1.5 kíló. 
 Hún fékk nýtt rúm um daginn sem hæfir prinsessunni 



Fróðinn minn er ekki nógu hress. Hann hefur verið slæmur í bakinu frá því ég kom heim í janúar og hefur farið reglulega til kírópraktors. Hann tekur hægum framförum, en ekki nógu miklum og þarf væntanlega að fara í röntgen eftir um 2-3 vikur til að ákveða hvað eigi að gera Kíró talaði jafnvel um að aðgerð væri inní myndinni og það olli mér áhuggjum, enda er það bæði stór og mjööög dýr aðgerð.  Ég ætla að hringja í tryggingarfélagið mitt í vikunni og athuga hvort allt sé á hreinu þar. 

 Safiyya vinkona er búin að vera með hvolpana sína í 3 vikur núna og gengur bara ágætlega. 

Lilly var sú feimnasta, hafði aldrei hitt hræddari hvolp sem var meira inní sér en hún, en eftir aðeins viku umturnaðist persónuleikinn hennar og hún er nú opin og ótrúlega hugrökk!
Molly var sú opnari af þeim systrum, rosalega aktív og hugrökk. Hún er hins vegar núna sú óöruggari af þeim tveim og leitar skjóls hjá systur sinni. En algjört kúrudýr og lúffari. 
Smellti svo einni mynd af Saf með hann Fróða minn, en hún er í uppáhaldi hjá honum enda dugleg að troða hann út af ýmsu góðgæti. 
Það verður svo nóg að gera hjá mér á morgun, þarf að vinna í hebresku verkefni, mæta í tíma og fara í hópinn minn. Já og koma Fróða fyrir í pössun einhverstaðar í millitíðinni. 
Þetta var fyrsta bloggfærsla ársins 2011 og vonandi verða þær fleiri ;)