Saturday, January 26, 2008

Meiri snjór

Langþráð helgin er gengin í garð og ég er fegin að komast í smá frí. Ég var orðin verulega þreytt á því að vinna svona einsog vitleysingur. Það er deildarsýning hjá HRFÍ þessa helgi, en var að vísu frestað til morguns vegna veðurs. Kristín ætlar að sýna skvísurnar sínar á morgun og ég ætla að sjálfsögðu að mæta á staðinn og horfa á. Trítla og Fróði eru nú bólusett fyrir hundaæði. Trítla fer væntanlega út föstudaginn 15. febrúar. María er orðin rosalega spennt að fá hana til sín og ég vona að allt gangi vel. Halla vinkona átti svo afmæli á fimmtudeginum og heldur uppá það á sunnudagskvöldinu.
Ég og Fjóla fórum annars í göngu í dag í snjónum, sem var svaka púl og stuð.
Moli var orðinn að snjóbolta

Fróði sæti

Hvar er Trítla?

Fróði snjókall

Fróði á fleygiferð

Litli snúllinn

Vinirnir horfa spenntir á eitthvað í fjarska


Trítla bjó sér til holu í snjónum og lá bara þar og beið þess sem vera vildi.


Það var ekki nokkur séns að kalla hana til okkar, þó við værum bara nokkrum metrum frá. Hún hafði fengið nóg og ætlaði bara að fá að vera í holunni sinni!

Annars var það ekki fleira, er á leið til Kristínar í kvöld að kíkja í heimsókn.
Bless í bili.

Tuesday, January 22, 2008

Lokað skott og opinn gluggi

Ég hef ekki frá miklu að segja. Lífið hefur sinn vanagang þessa dagana, vinna, sofa og vinna. Svo nokkrar hundagöngur þarna á milli. Kári og Lára fóru út í dag eftir rúmlega 6 mánaða undirbúning. Þau eru komin til New York núna og Ameríkuferðin þeirra hafin. Þau verða í burtu í 5 mánuði og 1 viku. Ég vona innilega að allt gangi vel og bið Guð að vaka yfir þeim. Ég vona svo við fáum fréttir af þeim sem fyrst, til að vita hvernig allt hefur gengið.
Ég fór með mömmu í fatabúð í dag, þar sem hún hafði séð úlpu sem hún vildi að ég mátaði. Þetta er svaka fín svört dúnúlpa og ég var mjög ánægð með hana. Mamma keypti hana svo handa dekurbarninu (mér) svo nú er ég komin í splunkunýja úlpu og svaka ánægð með það :)
Ég fór með bílinn minn í tjónamat um daginn og fékk góðar bætur fyrir skemmdirnar á honum sem kemur sér mjög vel núna. Meirihlutinn verður lagður til hliðar og notaður í fyrirhugaða Noregsferð. Ég hugsaði með mér að þetta væri allt soldið skondið. Eins og þið dyggu lesendur vitið eflaus var keyrt aftan á mig á aðfangadag með þeim afleiðingum að bíllinn minn skekktist að aftan og ég get ekki lengur opnað skottið. Ég fékk líka smá hnykk, en hef algerlega jafnað mig á því og ekki fundið neitt fyrir afleiðingum þess. Þegar ég fór með bílinn í tjónamat var viðgerðarkostnaður hærri kaupverði bílsins og því fékk ég ágætis pening borgaðan út sem kemur sér afar vel fyrir mig þar sem mig vantar pening svo ég geti farið út til Noregs í Guðfræðinám. Hins vegar get ég ekki opnað skottið og þar sitja nú fastar Guðfræðibækurnar úr Háskóla Íslands.Ég hef ákveðið að líta á þetta sem staðfestingu á því að ég eigi að fara í Guðfræði út til Noregs, en ekki hér heima. Því þegar Guð lokar dyrum (eins og á skottinu) þá opnar hann glugga (s.s. peningur í Noregssjóðinn). Þetta finnst mér allavega alveg brillíant, Guð er svo frábær :)
Ég er nú að fara að semja langt bréf til Alberts hundaþjálfara og spurja hann hvort hann geti hjálpað mér með Fróða minn.

Wednesday, January 16, 2008

Snjór, snjór, snjór

Það er aldeilis búið að snjóa síðustu daga. Ég er búin að fara í nokkrar göngur undanfarið, nú síðast í dag í Rauðhólunum þar sem ég var nærri búin að festa bílinn. Í gær fórum ég og Kristín í Heiðmörkina á litla Yarisnum hennar og festum hann að sjálfsögðu í bjartsýnni tilraun til að komast upp heldur bratta brekku í hnédjúpum snjó. Tveir ungir strákar á jeppa komu okkur til hjálpar og við losuðu okkur úr hremmingunni.
Ég setti hér inn nokkrar snjómyndir í bland úr hundagöngum þessarar viku.

Trítla í snjónum núna áðan. Hún var ekkert alltof hrifin eins og kannski sést :)

Fróði var þó afar kátur og hress með þetta. Sést aðeins í Trítlu þarna, en hún fylgdi fast í fótspor hans. Í bakgrunn sést svo í bílinn minn, en ég var nærri búin að festa hann, en tókst með gríðarlegri lagni og útsjónasemi að losa hann aftur og keyra til baka.

Nokkrar úr göngu með Kristínu í Heiðmörk í gær:

Snotra fékk að koma með okkur. Sjáiði eitthvað skondið við þessa mynd?

Snjórinn lá þungt á öllum trjánum, sem svignuðu undan þunga hans.



Sóldís og trítla að sníkja nammi (eða grátbiðja okkur um að taka sig heim aftur í hlýjuna)

Fróði flotti og Snotra í bakgrunn

Fróðakall var hæstánægður með þetta veður

Hér er smá hópmynd, en það sést næstum ekkert í tjúana sem eru nær grafnir í snjónum.

Allir að bíða eftir að fá nammi hjá Kristínu

Kristín og Aris

Aris bókstaflega elskaði snjóinn, en hér sést þar sem hún stingur hausnum á bólakaf í hann.

Í fyrradag fórum við í göngu með Fjólu í Guðmundarlundi og þessar tvær myndir voru teknar þar:

Fjóla og Moli sæti

Trítla verulega óánægð með þetta hræðilega veður.

Nú er ég á leið aftur út í snjóinn með Sólrúnu og Nölu áður en við förum saman á bænastund.
Ég verð svo í vinnunni frá 12-23 á morgun, sem ég er ekki alveg að nenna, en c'est la vie.
Varðandi að hafa bloggið, mér sýnist meirihluti vilja hafa það opið, svo ég geri ekki ráð fyrir þvíað loka því, allavega í bráð.
Farið varlega og gætið þess að festast ekki í snjónum!

Sunday, January 13, 2008

Bara nokkrar myndir og smá fréttamolar

Sökum þess að ég hef ekki þolinmæði að skrifa mjög mikið, vegna ný áunninnar fötlunar minnar ætla ég að fleygja hér inn nokkrum myndum í staðinn.

Hér erum ég og Kata í góðum gír, en hún kíkti í heimsókn til mín í byrjun mánaðarins, eða áður en hún fór aftur Norður á Akureyri að halda áfram í háskólanámi þar. Kata á 24ra ára afmæli í dag.
Innilega til hamingju með afmælið, Kata mín!

Ég fór svo á Reykjavík Pizza company í fríðu föruneyti. Halla sést hér, en hún naut matarins mjög.

Hér eru Janet og Sunna, en mamma hennar Janet vinnur þarna og gaf okkur góðan afslátt.

Sigga fær sér góðan bita af Pizzunni sem við pöntuðum saman.

Við kíktum að sjálfsögðu á Kaffi París í kveðju skyni við Siggu sem fór út til Svíþjóðar daginn eftir.

Sigga var ekkert alltof ánægð með kossinn sem Halla smellti á kinnina hennar.

Svo myndarlegar! :)

Þarna fékk ég að vera með!

Nú er Sigga farin til Svíþjóðar og Janet til Grikklands. Ég vona þið hafið það sem allra best!!!

Ég er annars búin að vera í fríi um helgina og ekki búin gera svo margt. Ég hitti Fjólu samt á föstudag og við fórum á Ruby Tuesday og svo á National Treasure: Book of Secrets. Á laugardag hitti ég Kristínu í smá göngu. Ég og Anna áttum svo góða stund saman, en hún var að enda við að kaupa sér íbúð í Mosó. Enn og aftur til hamingju Anna! Ég heilsaði svo upp á Sólrúnu og talaði hana næstum í svefn áður en ég loks yfirgaf hana um hálfþrjú leytið í fyrrinótt. Hún hefur í nógu að snúast við að undirbúa brúðkaup og fleira.

Ég fór í 1928 búðina um daginn og keypti 2 hundahús. Eitt fyrir Trítlu og eitt fyrir Fróða. Ég hugsaði með mér að nú hefði Trítla loks eitthvað útaf fyrir sig þar sem það væri ekki fræðilegur að Fróði kæmist inní ogguponsu litla húsið hennar, sem er rúmlega helmingi minni en hann sjálfur. I WAS WRONG...


Kem svo með fleiri fréttir seinna ;)

Thursday, January 10, 2008

Áááááiiiiiii!!!!!!

Ég skrifa hér einungis fá vel valin orð, þar sem mikið meira en það tæki mig heila eilífð. Ástæðan er sú að ég skellti bílhurð á vísifingur hægri handar í gær. Sem betur fer voru Fjóla og Sólrún með mér þar sem við höfðum verið í göngu með hundana, svo þær brunuðu með mig uppá slysó. Puttinn brotnaði ekki, en marðist illa, sinar slitnuðu, taugar skemmdust og það blæddi inná vöðva. Fæstir skilja hvernig ég fór að þessu, en ég vil kalla þetta náðargjöf :)
Jæja, læt þetta duga í bili :)

Tuesday, January 08, 2008

Breytingar á blogginu?

Ég er mikið að íhuga að hafa bloggið mitt opið aðeins völdum notendum, enda margt persónulegt sem ég skrifa hér inn og vil ekki að sé á allra vörum.
Þar sem ég notast við blogspot, sýnist mér ég geti aðeins valið að hafa "invited users" ef ég vil ekki lofa öllum að hafa aðgang. Það þýðir að einungist þeir sem ég býð að skoða bloggið mitt geta gert það og þá verða þeir að logga sig inn í hvert sinn. Til þess að logga sig inn þarf viðkomandi þó að hafa google reikning. Það er alveg ókeypis og ekkert mál að stofna svoleiðis reikning, ef þú hefur hann ekki fyrir. Ég hef sent email á marga sem ég vil bjóða að lesa bloggið mitt, þannig að ef þið opnið póstinn ykkar og klikkið á slóðina sem kemur, sjáið þið hvernig þetta myndi líta út ef bloggið væri opið einungis boðnum lesendum.
Ég hef sett upp skoðunarkönnun, svo endilega veljið þann valkost sem ykkir þykir fýsilegastur. Ég hvet ykkur einnig að commenta hér fyrir neðan og láta mig vita hvað ykkur finnst og hvort þið hafið fengið póstinn frá mér.
Endilega tjáið ykkur og segið hvað ykkur finnst :)

Hóst, kvef og snýtipappír

Í gær, sunnudag, svaf ég langt fram eftir degi. Ég kláraði heilar fjórar klósettrúllur á ca 3 sólarhringum, og lágu upprúllaðar leifar þeirra eins og hráviði um allt hús þennan ágæta sunnudagseftirmiðdag. Kata var á leið norður þetta kvöld svo hún kíkti við til að kveðja sjúklinginn. Við horfðum saman á Happy Feet á meðan ég þambaði hóstamixtúru. Um kvöldið kom Sigga í bæinn og gisti hjá mér aðfaranótt mánudags. Við kjöftuðum heilmikið saman og ég vaknaði mun hressari um hádegi á mánudegi. Þá fór Sigga til vinkonu sinnar. Ég náði svo í hana seinnipart, skutlaði henni í eina búð og svo héldum við í mat heim til mömmu. Því næst hittum við Janet og Höllu og fórum á kaffi París og þömbuðum heitt súkkulaði með rjóma. Eftir ánægjulegt kvöld dreif ég mig svo í vinnuna á næturvakt.
Ég þurfti þó að kveðja Siggu og Janet áður en ég fór og það þótti mér mjög leiðinlegt. Það er búið að vera yndislegt að hafa þær báðar hérna á klakanum og svo margar góðar stundir sem ég og Sigga áttum saman. Ég er þakklát fyrir þennan tíma, um leið og ég finn til mikils söknuðar. Sigga er á leið aftur til Arjeplög núna og ekki er víst ég sjái hana fyrr en eftir 2 ár! Ég vona innilega hún ákveði að koma til Osló og læra þar, svo ég geti haft hana nærri.
Ég tók nokkrar myndir, en þær koma seinna, þar sem ég þarf að hlaða þær inná tölvuna hjá mömmu og pabba. Ég tjái mig meira síðar :)

Sunday, January 06, 2008

Sigguheimsókn

Á fimmtudeginum svaf ég vel og lengi eftir næturvaktina. Svo vel og svo lengi að ég kveikti ekki á símanum fyrr en um sexleytið, mörgum til mikils ama. Þar á meðal Kötu, sem hafði reynt að ná í mig allan daginn, svo og Siggu vinkonu sem var á leið í bæinn og vantaði gistingu. Ég hafði nefnilega risið seint úr rekkju og byrjaði daginn á því að horfa á Calendar Girls með mömmu í sjónvarpsholinu. Það var kominn tími til að snúa aftur til míns heima í Kópavoginum, eftir að hafa búið hjá mömmu og pabba yfir hátíðarnar. Ég var búin að kvíða soldið fyrir þessu, þar sem ég á oft erfitt með svefn á Þinghólsbrautinni, svoleiðis að kvöldinu áður hafði ég beðið Guð að ég yrði ekki ein fyrstu nóttina mína þar eftir hátíðirnar. Hann var nú ekki lengi að bænheyra mig um það og um níuleytið var Sigga við útidyrnar, hlaðinn pökkum og pyngjum í leit að gistingu. Það vildi líka svo heppilega til að ég átti frí á föstudagin, sem er víst ekkki svo algengt þessa dagana. Ég og Sigga áttum því frábæran dag saman áður en hún tók rútuna upp í Ölver þar sem hún verður leiðtogi á nýársnámskeiði KSS um helgina. Við kíktum saman í Kringluna og hittum þar Janet og Lilju, sem var alveg æðislegt. Við röbbuðum heilmikið saman og fengum okkur svo borgara og franskar á McDonald‘s. Ég keypti mér líka tvennar buxur á svakalega góðum díl og var bara alsæl með daginn. Það eina sem skyggði á að ég var sárlasin, með hörkukvef. Síðasta nótt var alveg hræðileg, ég var að kafna úr hita og kvíða og kvefi og gat ekkert sofið. Ég mætti því í vinnuna í morgun í alveg hrikalegu ástandi og var einfaldlega rekin heim aftur. Ég er því heima hjá mömmu og pabba núna að farast úr kvefi og hausverk og búin að afboða mig í vinnuna á morgun. Fjóla á afmæli í dag og ég vona að hún hafi átt frábæran dag. Ég hlakka svo til að knúsa hana og færa henni smá afmælisglaðning.

Ég fékk sorgarfréttir frá ræktandanum mínum í gærkvöldi. Neró, bróðir Fróða er dáinn. Hann hljóp fyrir bíl. Ég samhryggist eigendunum rosalega, þetta er í einu orði sagt hræðilegt.

Hér er systkina hópurinn. Frá vinstri: Rakki (dó úr hjartagalla), Neró (varð fyrir bíl), Kleópatra (varð fyrir bíl) og að lokum Fróði minn, sá eini eftirlifandi.

Nú er Fróði einn eftir af systkinum sínum. Það fæddust þrír rakkar og ein tík. Hinn bróðir hans dó ungur, var með einhvern hjartagalla og systir hans hljóp fyrir öskubílinn í fyrra. Ég gæti aldrei afborði það að missa Fróða minn svona ungan og þakka Guði að hann er enn hjá mér, og bið að svo megi verða í langan tíma. Helst vildi ég aldrei þurfa að kveðja hann, hann er mér svo dýrmætur.

Ég ætla að enda á nokkrum myndum, til að bregðast ekki væntingum ykkar

Ég og Sigga sætar saman

Mér gekk ekkert alltof vel að miða myndavélinni til að byrja með.

Fróði að vera sætastur og kúra hjá mömmu

Ohh, svo gott að fá knús og koss frá mömmu.


Sigga var svo vingjarnleg að taka þessa mynd af mér, sem sýnir ástandið á mér.

Það var gaman að hitta Janet almennilega aftur, en hún er kristniboði í Grikklandi og býr þar.

Lilja og Janet

Lilja, Janet og ég


Lilja, Janet og Sigga


Thursday, January 03, 2008

María og Gísli farin heim

Ég fór með mömmu að keyra Maríu og Gísla útá flugvöll í dag. Ég var dauðþreytt, en reif mig samt framúr klukkan tvö til að geta farið með. Það var erfitt að kveðja. Það er búið að vera yndislegt að hafa Maríu og Gísla heima yfir jólin. Ég á eftir að sakna þeirra rosalega.
Annars fór ég í göngu með Fjólu og Kristínu þegar ég kom af flugvellinum. Við fórum í Guðmundarlund og það var rosalega fínt að vera allar þrjár saman aftur. Við höfum svo lítið hist yfir hátíðarnar, en nú verður ráðin bót á því.
Ég var svo boðin í mat til Kára og Láru í kvöld, ásamt mömmu og pabba. Það var rosalega fínt. Þau voru með svakalega góðan kjúklingarétt og kex með alveg geggjuðu sallati í eftirrétt. Það var svo rætt um fyrirhugaða Ameríku ferð þeirra eftir matinn, en þau fara út , að mig minnir, 19. janúar.
Ég er núna mætt í vinnuna og er með hálsbólgu og kvef og hálfslöpp eitthvað, en ég þrauka. Frí á morgun og hinn, það heldur mér gangandi.
Góða nótt, gott fólk, ég skrifa aftur fljótt.

Tuesday, January 01, 2008

Gleðilegt nýtt ár 2008!!!

Þá er árið 2007 liðið undir lok og nýtt ár gengið í garð. Margt hefur gerst á síðastliðnu ári. Ég hef verið í þrem vinnum þetta árið, byrjað og hætt í Guðfræði við Háskóla Íslands, búið á tveim stöðum, Trítla kom inn í líf mitt og svo margt, margt fleira. Ég hef tekið miklum framförum í lífi mínu með Jesú og hef fengið að upplifa Hann á alveg nýjan hátt. Ég hef verið buguð af oki kvíða og þunglyndis og leitað mér hjálpar. Ég hef fengið að eiga yndislega að, vini og fjölskyldu. Ég hef fengið svo margar góðar stundir með Kristínu og Fjólu í fjölmörgum hundagöngum. Ég hef upplifað sársauka og einmannaleika og gleði og frið. Guð hefur svo sannarlega blessað mig á því ári sem nú er liðið undir lok. Ég þakka honum allt það fólk sem Hann hefur sett í líf mitt, sem hefur lýst upp tilveru mína á dimmustu stundum. Ganga mín með Honum heldur áfram um ókomin ár og tilhlökkun ríkir í hjarta mínu um það hvert Hann mun leiða mig á nýju ári.

Ég fór í síðustu hundagöngu ársins 2007 með Kristínu í gær og að vana var myndavélin með í för...


Lagt af stað í einni halarófu uppað Rauðavatni


Eftir mikið puð og áreynslu náðist mynd af öllu genginu saman. Takið eftir því hvernig tjúarnir hjúfra sig upp að loðboltanum til að fá hlýju!

Þegar heim var komið var Fróða gefið slakandi lyf fyrir áramótin og hér sést árangurinn:


Um klukkan 20:30 borðuðum við hina hefðbundnu áramótamáltíð, kók og pizzu og að sjálfsögðu dunaði lagði "Happy New Year" með ABBA í græjunum.


Mamma komin í áramótagírinn

Svona leit diskurinn minn út.


Kári og Lára voru sæt og fín að vana, en þau fóru á 90's ball á NASA eftir veisluhöldin hér heima.
Fróði greyið var hrikalega stressaður og var límdur við mig allan tímann, skjálfandi einsog hrísla, greyið kallinn. Hann hefði eflaust kosið friðsamari leið til að fagna nýju ári.

Áramótaskrautið náði alla leiðina úr stofunni og niður stigann á neðri hæðina!

Hjónakornin í stíl, í fötum sem þau keyptu á Jamaika í ár.

Hjalti og María kíktu í heimsókn, en þau héldu uppá áramótin heima hjá fjölskyldu Maríu.

Kári tók eitt hresst lag fyrir okkur!

Pabba var ekki treyst fyrir neinu hættulegra en stjörnuljósi.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka samverustundir á árinu sem er að líða. Megi Guð blessa ykkur ríkulega á nýju ári!

Áramóta kveðja, Helga og voffarnir