Í gær, sunnudag, svaf ég langt fram eftir degi. Ég kláraði heilar fjórar klósettrúllur á ca 3 sólarhringum, og lágu upprúllaðar leifar þeirra eins og hráviði um allt hús þennan ágæta sunnudagseftirmiðdag. Kata var á leið norður þetta kvöld svo hún kíkti við til að kveðja sjúklinginn. Við horfðum saman á Happy Feet á meðan ég þambaði hóstamixtúru. Um kvöldið kom Sigga í bæinn og gisti hjá mér aðfaranótt mánudags. Við kjöftuðum heilmikið saman og ég vaknaði mun hressari um hádegi á mánudegi. Þá fór Sigga til vinkonu sinnar. Ég náði svo í hana seinnipart, skutlaði henni í eina búð og svo héldum við í mat heim til mömmu. Því næst hittum við Janet og Höllu og fórum á kaffi París og þömbuðum heitt súkkulaði með rjóma. Eftir ánægjulegt kvöld dreif ég mig svo í vinnuna á næturvakt.
Ég þurfti þó að kveðja Siggu og Janet áður en ég fór og það þótti mér mjög leiðinlegt. Það er búið að vera yndislegt að hafa þær báðar hérna á klakanum og svo margar góðar stundir sem ég og Sigga áttum saman. Ég er þakklát fyrir þennan tíma, um leið og ég finn til mikils söknuðar. Sigga er á leið aftur til Arjeplög núna og ekki er víst ég sjái hana fyrr en eftir 2 ár! Ég vona innilega hún ákveði að koma til Osló og læra þar, svo ég geti haft hana nærri.
Ég tók nokkrar myndir, en þær koma seinna, þar sem ég þarf að hlaða þær inná tölvuna hjá mömmu og pabba. Ég tjái mig meira síðar :)
No comments:
Post a Comment