Sunday, December 30, 2007

Pabbi á afmæli í dag!


Pabbi á afmæli og er orðinn 53ja ára! Ég gaf honum bjórkrús sem á stendur: KING. Hann var mjög ánægður með það, en hann og mamma eiga 31 árs brúðkaupsafmæli í dag og ég keypti alveg geggjað kort handa þeim í tilefni dagsins.

Það hefur verið brjálað veður í dag. Ég þurfti þó að hætta mér út í óveðrið til að viðra hann Fróða, eins og dyggur hundaeigandi gerir, sama hvernig viðrar. Ég keyrði beinustu leið á Geirsnef og leyfði honum að spretta þar aðeins úr spori. Á meðan tók ég myndir flóðinu sem hefur orðið við veginn og er að drekkja trjánum og gróðrinum þar í kring.


Ég klifraði uppá hól til að taka þessa mynd, en efst á myndinni má sjá hvernig áin er að flæða yfir bakka sína og við það að drekkja veginum, það hefur svo myndast eins konar fljót hinum megin við veginn og allt farið á kaf.


Hérna sést betur hvað vatnið er mikið og þetta er svakaleg djúpt líka!


Aumingja tréin sem eru komin á kaf!

Góð afsökun fyrir að henda skítapokanum ekki í ruslið!

Hér er svo mamma, sem steinsofnaði við að leysa krossgátur og Trítla með. En Trítla er þarna vel pökkuð inn þar sem það er komin sýking í skurðinn hennar og ég vildi ekki að hún væri að sleikja hann. Ég setti joð á hann og vonandi versnar þetta ekki. Þetta er þó bara sýking í húðinni og mjög staðbundin, ekkert alvarlegt.

Að lokum ein af prinsinum, en ég var að reyna að ná góðri mynd af honum.

Mamma er núna að horfa á einhverja rosa tónleika niðri og pabbi er í lazy boy-num. Eftir matinn í kvöld förum ég, Kári, Lára, María og Gísli að sjá I am Legend og vonandi höfum við gaman af.
Ég segi annars bara takk fyrir mig í bili og vonandi eigið þið góðan dag inni í hlýjunni.

Saturday, December 29, 2007

Heimsókn til Guðbrandar frænda

Við kíktum í boð í kvöld til Guðbrandar frændu og Höllu. Það var mjög fínt, við fengum kalkúnn með fyllingu og trönuberjasósu, nýinnflutt frá Bandaríkjunum.
Ég var með nýja besta vininn með í för og smellti af nokkrum með honum...

Eina myndin af mömmu sem ég fékk leyfi fyrir að setja á netið.

Pabbi og Guðbrandur í mjög gáfulegum samræðum.

María og Gísli voru hress og kát

Kári og Lára mætt á svæðið

María Erla og Hjalti

María

Þröngt mega sáttir sitja

Gömlu hjónin (fékk ekki leyfi fyrir að setja þessa mynd hér inn)

Hjalti og María fín og sæt

Tilraun til að taka fína mynd af okkur systkinunum saman, sá svo eftirá hverskonar svip Hjalti setti upp um leið og ég smellti af!

Allir voru saddir og sælir eftir allt átið

Svo ein í lokin af Trítlu sætustu í fanginu á Maríu þegar við komum heim.

Góða nótt kæru vinir, ég held svo áfram að dæla myndum hingað inn næstu daga!

Gönguferð í Elliðaárdal

Ég mamma og María kíktum í góða göngu í Elliðaárdalnum í dag og að sjálfsögðu var nýja myndavélin með í för. Hér er afraksturinn af því:

Ég hef aldrei séð Elliðaárnar jafn vatnsmiklar, en hér er fossinn orðinn alveg gríðarlega kröftugur.


Ofan og neðan pósar Fróði fyrir mig, ég batt hann þarna við svo hann væri kyrr!


Við þurftum sumstaðar að vaða yfir ár, sem ekki höfðu verið til áður í dalnum, en hér var búið að setja trjágrein yfir ánna, sem einskonar brú.

Hérna að ofan er María að hjálpa mömmu yfir "brúna"

Þetta er semsagt áin sem við vorum að vaða yfir hér að ofan.

Ég og María með báða voffana.

María sæta og Trítla sæta

Mæðgurnar saman og Trítla með

Mamma að reyna að búa til snjóengil

Fallegt tré

Hér að ofan og á síðustu myndunum sést hvað það er mikið í ánni!


Jæja, takk fyrir mig!

Fimmti dagur jóla

Jæja, bara nokkur orð hér í tilefni þess að ég er búin að fjárfesta í nýrri myndavél, það er þeirra sem ég minntist á hér áður. Ég er enn að læra á hana og er bara búin að taka nokkrar myndir til að prófa.
Ég ætla líka að skjóta því hér inn að ég og Anna fórum á bíó í kvöld á Enchanted. Það var rosa fín mynd og áhorfendur á aldrinum 6-60 ára og allir skemmtu sér jafnvel.
Jæja ég ætla að skella hér inn einni mynd sem ég tók á nýju vélina (tek fram að þetta voru örugglega kolrangar stillingar hjá mér). María

Jæja, ég ætla að halda áfram að reyna að átta mig á þessari græju svo ég geti farið að nota hana fyrir alvöru sem fyrst.
Góða nótt, gott fólk.

Friday, December 28, 2007

Fjórði dagur jóla

Gærdagurinn var fljótur að líða. Ég vaknaði ekki fyrr en klukkan eitt og fór þá í göngu með Kristínu. Það var fínt fyrir utan skítakulda. Eftir gönguna fór ég með hundana á Ósabakkann og dreif mig svo í vinnuna. Ég kom svo ekki á Ósabakkann aftur fyrr en um hálf tólf. Þá beið ég þar til María og Gísli kæmu heim svo ég gæti aðeins spjallað við þau. Það endaði með því að ég fór ekki að sofa fyrr en 2 um nóttina. Ég átti því í miklum erfiðleikum með að hífa mig á lappir í morgun og fara í sturtu um sjöleytið. En það hófst og hér er ég mætt í vinnuna. Ég hlakka svo til þegar ég er búin að vinna. Þá fer ég og festi kaup á vélinni góðu áður en ég fer heim til gemlinganna minna. Svo mun ég njóta tilhugsuninnar að eiga framundan helgarfrí.
Ég á frímíða í bíó sem ég fékk frá KFUK og gildir til 31. desember. Það er því ekki seinna vænna að nota hann og ef einhverjum langar að koma með mér á bíó í kvöld er sá hinn sami velkominn. Ég er ekki búin að ákveða hvaða mynd, en það eru nokkrar sem mig langar á.
Á morgun á pabbi afmæli og ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gefa honum. Ég ætla reyndar að kíkja á útsölurnar í dag eða á morgun og finna á mig föt og kannski ég finni eitthvað sniðugt handa honum í leiðnni.
Ég ætla nú að halda áfram að vinna, kem með fréttir og vonandi myndir innan tíðar.

Thursday, December 27, 2007

Annar í jólum


Í dag vaknaði ég snemma og fór í vinnuna. Ég var að vonast eftir rólegum, áreynslulitlum vinnudegi, þar sem ég var ekki viss hvernig mikil vinna færi með bakið á mér. Mér varð ekki að ósk minni, þar sem ég þurfti að vera stanslaust að til klukkan tvö um daginn. Þá var ég alveg búin, en ég átti að vinna til fjögur. Þegar kvöldvaktin mætti á svæðið sá hún aumur á mér, svo ég fékk að fara heim korter yfir tvö. Þá fór ég í stutta göngu með Fjólu í jólasnjónum, sem var bara gaman. Svo fórum við fjölskyldan að heilsa uppá Hafdísi í nýju vistarverunum hennar. Hún leit miklu betur út en síðast. Komin með hár, að vísu öðruvísi á litinn en áður, þ.e. dökkbrúnt og grásprengt. En það var hár engu að síður. Hún sat í hjólastól, en hún gat einungis hreift hendurnar lítillega. Að öðru leiti er hún alveg lömuð. Hafdísi þótti afskaplega gaman að fá okkur og það var líka gaman að sjá hana svona hressari. Við komum svo ekki heim á Ósabakkann fyrr en hálfsex, en þau var klukkutími í hangikjötið og heimalagaða ísinn. Hvorutveggja var algert lostæti og ég át hressilega yfir mig. Eftir matinn spiluðum við Party og Co. Þetta er rosa skemmtilegt spil og við skiptum okkur upp í lið og spiluðum það tvisvar. Í fyrra skiptið vann ég, mamma og pabbi og í það seinna ég Gísli og María (eruð þið farin að sjá munstrið hérna?).
Núna eru Gísli og María að horfa á imbann og ég sit hér að ákveða hvað ég ætli að gera næst. Ég er að vinna aftur á morgun, í þetta sinn frá hálffjögur til hálftólf.
Það var eitt soldið fyndið með jólagjafirnar sem ég fékk. Ég var rosalega ánægð með þær allar, en ég fékk fullt af frábærum gjöfum, bara allt aðrar en þá sem ég bað um. Ég bað nebbla um myndavél og fékk hana ekki. Ég er ekki að reyna að láta ykkur vorkenna mér eða hljóma eins og vanþakklátur krakki, bara að segja frá þessu því mér finnst þetta soldið skondið. Þess vegna hef ég nú ákveðið að festa kaup á vél þegar ég fæ útborgað á föstudag. Eftir mikla eftirgrennslan, verð- og gæðasamanburð hef ég tekið ákvörðun. Fujifilm FinePix F50 verður fyrir valinu.
FinePix F50 byggir á styrk F30 og F31 sem komu á undan og bætir við enn fleiri kostum. Meðal annars má nefna að F50 er 12M díla, sem er meira en flestir þurfa. Hún er með andlitskennslum 2.0 ("Facedetection 2.0") sem þekkir nú orðið andlit á hlið og kant. Tækni sem gerir alla sem taka myndir af mannfólki og mannabörnum að betri ljósmyndurum. F50 er komin með tvöfaldri hristivörn, bæði flögufærslu ("CCD Shift") og háhraða töku með óvenjumiklu ljósnæmi. Að auki er FinePix F50 með "No Redeye" tækni, s.s. engin rauð augu!

Sú vél kom best út varðandi verð og gæði, en hún er 15.000 krónum ódýrari en Canon Ixus 960 vélin sem ég hafði augastað á, en hefur alla sömu fítusana og er m.a. jafnmörg megapixl. Vélin kostar 34.900 og fæst í ljósmyndavörum, Skipholti.
Ég get núna ekki beðið eftir að fá útborgað og kaupa vélina á föstudag og taka hana strax í notkun!
Ég ætla núna að kíkja á imbann, eða glugga í bók og fara svo í háttinn.
Góða nótt elskurnar mínar og sofið rótt í alla nótt!

Tuesday, December 25, 2007

Gleðileg jól


Jæja, þá eru jólin gengin í garð. Ég hef haft í mörgu að snúast síðustu daga og ég var á næturvöktum alveg framá þorláksmessu. Á laugardeginum kíkti ég í jólaboð í vinnunni og fór svo með Kötu í Kringluna að versla síðustu gjafirnar. Við enduðum svo á því að fara á kaffihús og fá köku og jólaöl. Á Þorláksmessu kláraði ég að pakka inn síðustu gjöfunum og fór svo að skreyta jólatréið með pabba. Ég, pabbi, mamma og María fórum svo á jólahelgistund í Friðrikskapellu rétt fyrir miðnætti. Það er orðið hefð hjá okkur að fara þangað á Þollák og mér finnst það svaka jólalegt og notalegt. Á aðfangadag fór ég að keyra út gjafir. Ég var rétt búin að fara á einn áfangastað og var að beygja inná nýbílaveg þegar keyrt var aftan á mig. Ég fékk slæman hnykk á hálsinn og aumingja Fróði fékk smá áfall líka. Strákurinn sem keyrði á mig var mjög almennilegur. Ég hringdi á lögregluna sem kom og tók skýrslu af okkur. Ég var í fullum rétti, sem betur fer. Rauður skemmdist töluvert að aftan, en ég hef samband við tryggingarnar milli jóla og nýárs og kem með hann í skoðun. Ég hélt þau ótrauð áfram jólaútkeyrslunni, en var komin heim um fjögurleytið. Þá var ég farin að finna verulega til í bakinu, öxlinni og hálsinum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að fara uppá slysó. María bauðst til að koma með mér og ég var mjög þakklát fyrir það. Á biðstofunni var fyrir einn strákur. Hann var á aldur við Maríu og hafði greinilega lent í alvarlegum slagsmálum. Hann var líka augljóslega undir áhrifum fíkniefna. Ég og María biðum í klukkutíma eftir að fá að tala við lækni, en hann skoðaði mig og tilkynnti mér að þetta væri slæm tognun í hálsi, vinstri öxl og baki. Hann skrifaði svo uppá nokkrar pillur handa mér. Ég og María héldum svo burt af slysadeildinni, en ungi strákurinn sem ég minntist á áðan elti okkur. María spurði hann hvert hann ætlaði, en þá sneri hann við og þóttist ætla í aðra átt. Ég og María hröðuðum okkur að bílnum, en þá var strákurinn rétt fyrir aftan okkur. Við rétt náðum að hoppa uppí bíl, læsa hurðum og tættum í burtu áður en honum tókst að opna hurðina farþegamegin.
Þegar við komum heim var korter í jólin og við skiptum um föt í hvelli. Kvöldið var rosalega fínt.Hamborgarahryggurinn var algjört lostæti og sömuleiðis heimalagaði ísinn í desert. Því miður gat María ekki notið neins þessa þar sem hún var komin með ælupest og hélt engu niðri. Efir matinn opnuðum við pakkana, sem voru ófáir. Ég fékk fullt af frábærum gjöfum og er rosalega þakklát! Fyrir nóttina fór ég út með hundana í yndislega fallegt jólaveður. Það var alveg hljótt og logn og snjóflygsurnar svifu hægt og hljóðlátlega niður á hvíta jörðina.
Í dag, jóladag, fór ég í elliðaárdalinn með mömmu og hundana. Annað hef ég nú ekki afrekað, nema þá að borða súkkulaði og skoða gjafirnar mínar. María og Gísli eru hjá Indí, mömmu Gísla núna. Um fjögurleytið hringdi María, en þá var Húgó, hundurinn hennar Indí týndur og þau úti að leyta að honum. Ég setti auglýsingu á hundaspjöllin og nokrku síðar hringdi einhver sem sá auglýsinguna og gat bent þeim á hvar Húgó væri. Hann er því kominn í faðm fjölskyldunnar núna, Guði sé lof!
Ég er öll skökk og skæld og helaum í hálsinum. Mig hálfkvíður fyrir því að fara í vinnuna á morgun í þessu ástandi, en vonandi hefst þetta allt saman.
Ég óska ykkur annars öllum gleðilegra jóla. Megi Guð blessa ykkur og setja frið sinn og gleði í hjörtu ykkar þessi jól.
Jólakveðjur, Helga, Fróði og Trítla

Friday, December 21, 2007

3 dagar til jóla

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Það er yndislegt að vera búin að fá Maríu heim! Þegar ég kom heim af vaktinni í gær svaf ég einungis fjóra tíma áður en ég fór fram og knúsaði hana og Gísla. Fróði var yfir sig hrifinn af Gísla, en Trítla var hálfhrædd við þau bæði og þorði ekki að heilsa uppá þau fyrr en seinna. Ég og María spjölluðum svo um heima og geima áður en hún fór að heimsækja einhvern vin sinn í Grafarvoginum. Þá dreif ég mig í Dýrabæ og skilaði ólinni sem ég hafði keypt á Fróða og var of lítil. Í staðinn keypti ég silkiolíu, sjampó og hárnæringu fyrir jólabaðið (handa hundunum þ.e.). Um sexleytið var matur heima hjá múttu. Það var rosa góður indverskur kjúklingaréttur í matinn og það var yndisleg tilfinning að vera þarna öll fjölskyldan samankomin við eitt borð aftur. Eftir matinn fórum ég, María og mamma á jólatónleikana með Carolu. Þeir voru í einu orði sagt stórkostlegir. Carola geislaði bókstaflega af hlýju, einlægni og kærleika og það skilaði sér í söng hennar.Við vorum allar himinlifandi með tónleikana og svifum útaf þeim í lokin.
Um ellevuleytið mætti ég í vinnuna. Nóttin var löng og erfið. Ég er svo þreytt, enda ekki búin að sofa nóg. Veðrið var leiðinlegt og ekkert nema óhugnarlegar myndir í sjónvarpinu. Ákveðinn ónefndur aðili reyndi líka töluvert á þolrifin í mér og hef ég fengið mig fullsadda. En nú er einungis einn tími eftir sem verður vonandi fljótur að líða.
Annars vona ég að þið eigið góðan dag

Thursday, December 20, 2007

4 dagar til jóla


Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.

Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

Það má segja mér hafi tekist með ágætum að loka mig af frá umheiminum síðastliðna daga. Ég átti langt og gott frí frá sunnudegi til miðvikudags. Ég náði í Siggu heim til Styrmis á sunnudagskvöld, en þaðan fórum við heim til mín. Við áttum svo alveg frábærar stundir saman síðustu daga. Mest lágum við í leti og kjöftuðum eða horfðum á bíómyndir. Kristín dró okkur reyndar út í göngu á mánudeginum í roki og rigningu. Halla kíkti svo í heimsókn og við fórum með henni út að borða. Á þriðjudagskvöldinu kíktum við í Kringluna þar sem ég lauk loks jólagjafainnkaupunum. Þetta var bara alveg yndislegt og svo kósí að hafa bílskúrinn alveg útaf fyrir okkur. Við töluðum líka heilmikið saman um Noreg og plön okkar fyrir næsta ár. Sigga er að sækja um að fá að fara sem kristniboði til Eþíópíu, sem er mjög spennandi. Ég keyrði svo Siggu út á flugvöll um þrjúleytið í dag, þar sem hún fór um borð í vél til Egilstaða, en hún verður hjá fjölskyldunni sinni um jól og áramót. Við hittumst svo aftur á nýárinu áður en hún fer út til Svíþjóðar.
Eftir alla þessa afslöppun tók jólastressið og daglegt líf við. Ég tók til í herberginu mínu hjá mömmu og pabba í dag, þreif mörg kíló af þvotti og fleygði álíka af rusli.
Ég var síður en svo ánægð með Fróða í kvöld. Hann var búinn að fá sig full saddann af Trítlu og þegar hún gekk framhjá honum þar sem mamma var að knúsa hann réðist hann að henni. Það voru svaka læti í honum og tilgangurinn aðallega að hræða Trítlu. Þetta gerðist rosalega hratt og áður en ég náði að stöðva hann, eða skamma var það yfirstaðið. Hann meiddi Trítlu ekkert líkamlega, en hún var gjörsamlega miður sín allt kvöldið. Ég hef aldrei áður séð hana svona og það var erfitt að horfa uppá litlu lífsglöðu Trítlu læðast um húsið einsog vofa of hjúfra um sig inní dimmu sjónvarpsherberginu, fjarri öllum öðrum. Það er ljóst að Trítla þolir ekki mikið meira af þessu og ég get ekki til þess hugsað að þetta valdi henni varanlegum skaða. Svo virðist sem hún og Fróði eigi alls ekki samleið og Trítla nýtur sín enganveginn í félagsskap hans. Það hryggir mig mjög, en þetta gengur ekki lengur. Umfram allt vil ég að Trítlu líði vel og hún fái að njóta sín sem sá frábæri hundur sem hún er, með allt það sem hún hefur uppá að bjóða. Ég legg þetta í Guðs hendur og bið þið gerið slíkt hið sama.
Á léttari nótum þá er systir mín komin heim! Hún og Gíslu lentu í Keflavík klukkan 1:30 í nótt. Mamma sótti þau uppá flugvöll og ég get ekki beðið eftir að knúsa hana þegar ég kem heim. Á morgun verður matur heima með allri fjölskyldunni og um kvöldið förum við mæðgurnar á jólatónleikana með Carolu! Ég hlakka svo til!
Ég hef þetta ekki lengra og vona að tíminn verði fljótur að líða....



Sunday, December 16, 2007

8 dagar til jóla


Sá fimmti Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
-Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku’upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti’ ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

Jæja, haldiði ekki að ég hafi gleymt að blogga í gær! Ég átti allavega góðan dag í gær. Ég til tvö eftir að ég kom heim af næturvaktinni og fór þá að baka piparkökur með mömmu. Um sexleytið fór ég í stutta göngu með Fjólu. Við fórum svo með Davíð og fengum okkur pizzu og svo á bíó að sjá Fred Clause. Þetta var bara vel heppnað kvöld. Ég fór svo heim til mín með voffana, en gat ómögulega sofnað þó ég væri dauðþreytt. Ég settist því fyrir framan kassann og kveikti á einu stöðinni sem er í boði, þ.e. stöð eitt. Þar var verið að sýna mynd með Bruce Willis í aðalhlutverki sem einhvern svaka harðjaxl í bandaríska hernum. Hann var staddur í Afríku og átti að bjarga einhverri Damsel in distress, í þetta sinn lækni, svona mother teresu týpu sem hélt til á einhverri trúboðstöð í þorpi í frumskóginum. Það endar svo á því að hann bjargar öllum sjúklingunum hennar líka, eftir að hafa lifað af einhverja svaka bardagasenu þar sem hann var skotinn svona 7 sinnum af grimmum uppreisnarhermönnum. Hann hristi þetta allt af sér og kom með einhverja svaka flotta línu í lokin þegar allir afríkubúarnir klöppuðu fyrir honum. Myndin náði þó að snerta aðeins við mér þar sem í henni voru mjög átakanlegur senur þar sem uppreinsarhermenn níddust á og myrtu saklausa þorpsbúa. Það var einsog þeir sem léku þorpsbúana væru að leita í sína eigin reynslu af slíkri grimmd í túlkun sinni á þessum atburðum. Þetta var ágætis ámynning fyrir mig, um hverskonar illska ræður ríkjum sum staðar á jörðinni og þörfina á að biðja fyrir þessum löndum sem eru í svona miklu myrkri.
Ég sofnaði svo á endanum og vaknaði við símann minn um eittleytið í dag. Það var Fjóla sem vildi plata mig út í göngu í roki og rigningu. Ég drattaðist á fætur og keyrði heim til Kristínar og þaðan fórum við að ná í Fjólu. Eftir rennblauta göngu, var ferðinni heitið í Smáralindina þar sem ég keypti mér svaka sæta peysu í Zöru og rosa flotta leðuról með steinum í handa Fróða í jólagjöf. Við fengum okkur svo að borða allar þrjár og Davíð með, á Serrano.
Ég fór svo og hitti Kötu heima hjá Maríu í Yrsufelli. Kata er nýkomin að norðan og hún var bara hress, komin með enn eina funky hárgreiðsluna. Fróði og Trítla komu með inn og heilsuðu uppá Bóas og Heru, Silky Terrier hundana hennar Maríu og Guðmundar. Bóas er rúmlega 4ra ára og ógeldur, en þrátt fyrir það var Fróði með rosa derring við hann. Þetta endaði þó vel þar sem þeir voru fljótlega farnir að hlaupa um allt hús í svaka leik og fjöri.
Það var svo hin hefðbundna sunnudagspizza heima hjá mömmu og pabba og er ég nýbúin að belgja mig út af henni. Ég sit nú í sófanum við hliðina á mömmu sem er komin með flensu og býð eftir símtali frá Siggu, en hún er nú komin á klakann. Ég fer og næ í hana heim til Styrmis þegar hún bjallar í mig, en hún gistir hjá mér meðan hún er í bænum. Ég hlakka rosa til að hitta hana og það verður gott að spjalla við hana eftir allan þennan tíma.
Ég segi ykkur svo allt um það á morgun.


Saturday, December 15, 2007

10 dagar til jóla



Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Dagurinn hófst á smákökubakstri með mömmu. Við ákváðum að gera Spesíur og einhverskonar möndlutoppa. Spesíurnar heppnuðust bara vel, en topparnir urðu heldur flatneskjulegir og enduðu ævi sína í ruslatunnunni. Ég og mamma vorum þó ekki búnar að gefast upp á bakstrinum á þessum tímapunkti heldur útbjuggum við piparkökudeig, sem við bökum kökur úr á morgun. Það var algerlega brjálað veður í dag og við þurftum oftar en einu sinni að vinda vatn uppaf forstofugólfinu. Meira að segja pósturinn átti frí í dag, slíkur var veðurofsinn.
Ég hringdi svo í MF skólann í Noregi eftir hádegi og fékk takmarkaðar upplýsingar á bjagaðri ensku, þess efnis að ég ætti að senda mail á alþjóðlega tengilið skólans, sem ég gerði. Ég hef þó ekkert svar fengið enn.
Ég átti að vera á kvöldvakt í kvöld, en yfirmaður minn hringdi og bað mig að koma á næturvakt í staðinn, sem útskýrir tímasetningu þessara skrifa. Ég var því heima hjá mömmu og pabba í kvöld. Kári og Lára kíktu við til að ná í stóla sem þau fengu lánaða, þar sem þau voru að halda partý heima hjá sér. Ég hafði útskýrt fyrir Kára fyrr um daginn hvað ég væri að íhuga með Trítlu og hann sagðist um leið vera tilbúin að passa hana fyrir mig þegar ég væri úti. Lára undirstrikaði það svo þegar þau komu um kvöldið. Ég er þakklát fyrir það og finnst gott að vita af því, en gallinn er að þau eru að sækja um á stúdentaíbúðum og ég held örugglega að þar séu engin gæludýr leyfð :( En það er ekki alveg víst þau fari á garðana. Eftir að þau voru farin horfði ég á kafbátamynd með pabba áður en ég drattaðist hingað í vinnuna. Hér hef ég svo verið í mestu makindum að horfa á sjónvarpið og skrifa jólakort.
Ég læt þetta duga í bili og vona að þið sofið værum svefni núna.

Thursday, December 13, 2007

11 dagar til jóla


Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.
Ég átti langþráð frí í dag og skellti mér að sjálfsögðu í góða göngu í Heiðmörk með Fjólu og Kristínu. Ég fór svo í bað heima hjá mömmu og pabba þar sem sturtan heima hjá mér er eitthvað biluð. Ég ætlaði reyndar ekki að komast uppúr baðin þar sem það var svo hrikalega notalegt að liggja bara þarna með kertaljós og hlusta á jólalög. Ég skreið þó uppúr kerinu á endanum til að skella mér í bíó með Davíð og Fjólu á Bee Movie. Þvílík snilldarmynd sem það var, alveg mögnuð! Við fórum í Kringlubíó og það var hálfundarleg tilfinning þegar við komum útúr bíóinu og allar búðirnar enn opnar. En það eru víst að koma jól.
Á morgun fer ég til mömmu að baka smákökur. Ég ælta reyndar líka að hringja í MF skólann og athuga hvernig ég á að sækja þar um. Ég var að átta mig á því að það er aðeins rétt rúmlega hálft ár þangað til ég fer út, ef eitthvað verður af þessum plönum. Ég er mjög spennt, en líka með stóran hnút í maganum yfir þessu öllu saman. Hvernig á ég að geta farið frá fjölskyldu og vinum í allan þennan tíma? Og svo er það málið með hundana. Ég get ekki hugsað mér að Fróði þurfi að fara í einangrun þegar ég kem heim aftur, auk þess sem ég veit ekki hvernig hann mun þola breytingarnar. Ég verð allavega að reyna að ná þessum aðskilnaðarkvíða úr honum áður en ég fer. Svo er það Trítla. Mamma er alveg á því að ég eigi bara að taka Fróða með mér og Trítla eigi að fara í fóstur til systur minnar í Danmörku. Það sé of mikið fyrir mig að vera ein með þau bæði. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst. Það er sjálfsagt erfiðara að finna húsnæði með tvo hunda heldur en einn og Trítla nýtur sín nú ekki sérlega í Fróða félagskap. Finnst hún svo bæld eitthvað. Ég veit alls ekki hvað ég á að gera og bið ykkur endilega að biðja fyrir þessu.
Annars var mamma að tala við vinkonu sína og ætlar að tala við einhverja sem þekkja til í Osló til að athuga með húsnæði fyrir mig. Mér líður næstum einsog áhorfandi í þessu öllu saman og held þetta verði ekkert raunverulegt fyrir mér fyrr en mér er ýtt á sviðið undir lokin. Það er þó enn ætlunin að fara út eftir áramót og skoða skólann, þá verður þetta eflaust aðeins áþreifanlegra. Ég vona bara og bið að Guð gefi mér fljótt góða vini þarna úti. Ég óttast mjög að vera alein. Ég hef ákveðið að byrja að biðja Guð um að gefa mér gott húsnæði úti. Helst í kjallaranum hjá eldri konu sem myndi passa Fróða fyrir mig á daginn. Ég ætla líka að biðja Hann að finna handa mér góða vini. Ég ætla að enda þetta í dag með því að leggja allt í Hans hendur og bið Hann líka að blessa ykkur og gefa ykkur góða hvíld í nótt.

Wednesday, December 12, 2007

12 dagar til jóla

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
-Hann skreið ofan úr gili
og skaust í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.


Ég fór til Margrétar í morgun og átti góðan tíma með henni. Eftirá fór ég í Öskjuhlíðina með hundana í aftaka veðri. Ég mætti svo í vinnuna um 3:30. Þetta var bara ágætisdagur í vinnunni, fyrir utan að ég flaug á hausinn í hálkunni á bílastæðinu fyrir utan Marbakkann og fékk hrikalega í bakið. Sigurbjörg bjargaði mér samt alveg þar sem hún átti íbúfen! Á morgun er ég í fríi og ekkert á dagskrá annað en 12 sporin, en planið er þó að hitta Fjólu og Kristínu og fara kannski í göngu. Nú er ég annars bara búin á því og ætla heim í bælið.
Góða nótt og Guð geymi ykkur.

Tuesday, December 11, 2007

13 dagar til jóla


Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Ég átti frí á mánudaginn og nýtti það í góða göngu með Fjólu og hundana fyrripart. Við skelltum okkur svo í verslunarleiðangur í Smáralind eftirá, en sú för endaði í kristilegu bókabúðinni Ljósglætunni í Austurstræti, þar sem var 22% afsláttur af erlendum bókum. Þar verslaði ég helling af góðum bókum á góðu verði. Um kvöldið fékk ég Kristínu og hundana hennar í heimsókn og við áttum mjög notalega stund saman, enda orðið mjög jólalegt og kósí heima hjá mér. Fróði var að vísu ekki alveg sáttur við að fá Aris í heimsókn og vildi ekki lofa henni að koma nálægt dótinu sínu.
Í dag fór ég með Fjólu og Kristínu í fínustu göngu í roki og rigningu áður en ég brunaði á kvöldvakt um hálffjögur. Í óveðrinu síðustu nótt urðu skemmdir á húsinu þeirra mömmu og pabba. Trélistar framan á húsinu brotnuðu af og nú er það heldur ófrínilegt að framan, greyið. Þetta eru þó ekki alvarlegar skemmdir og enginn gríðarlegur kostnaður að laga þetta.
Rut sendi mér myndir um daginn frá því að hún kom í heimsókn til mín síðasta sumar og ég ætla að skella nokkrum þeirra hingað inn.

Nokkrar af skötuhjúunum:

"Ætli það sé safe að sitja svona nálægt honum?"
"Æ, ég tek bara sénsinn og halla mér aðeins að honum."

"Jæja, hann er sofnaður kallinn, best að ganga bara alla leið!"
Við stöllurnar saman; Rut, Halla og ég (og Trítla)
Rut með báða voffanaAnnars segi ég bara góða nótt og vonandi færir Stekkjastaur ykkur eitthvað gott í skóinn!