Sunday, December 09, 2007

Jólasnjór

Ég ákvað að hætta þessari veikindavitleysu á fimmtudaginn og fór þá í tvær langar göngur áður en ég fór í vinnuna. Sú fyrri var í Elliðaárdalnum með mömmu og sú seinni í Guðmundarlundi með Fjólu og Kristínu og samtals 7 voffum, Trítla var þó fjarri góðu gamni, enda enn að jafna sig eftir geldinguna. Veðrið var yndislegt, frost, snjór, sól og logn. Gjörsamlega himneskt og afskaplega fallegt, enda voru myndavélar mundaðar á hægri og vinstri. Ég var að vísu ekki með vél, þar sem ég á enga, en ég rændi bara vélinni af Fjólu þegar löngunin greip mig. Það var sem betur fer á hvorugu augnablikinu sem ég rann á rassinn í hálkunni. Fjóla var svo indæl að setja einhverjar af þessum myndum á bloggið sitt, svo kannski ég smelli einhverjum hingað inn líka.
Ég mætti annars í vinnuna um sexleytið í dag og við fórum á jólatónleika með Bó, sem var rosalega gaman. Ég var í besta sætinu á staðnum, þar sem ég fékk að sitja með hjólastólagenginu í þartilgerðri stúku. Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir, en hljómurinn hefði oft mátt vera betri. Ég er svo að vinna í nótt, sem útskýrir tímasetninguna á þessum skrifum, sem er heldur ókristileg. Á morgun ætla ég að rífa mig framúr um eittleytið og skella mér í Sólheimakot í smáhundajólahitting ásamt Fjólu og Kristínu. Ég vona bara að veðrið verði eins yndislegt og það hefur verið undanfarna tvo daga.
Jæja, nóg kjaftagangur, ég skelli hér inn örfáum myndum teknum í leyfisleysi af blogginu hennar Fjólu.

Þessa tók ég af þeim stöllum, Fjólu og Kristínu

Smellti svo þessari af prinsinum mínum


Fjóla náði þessari snilldarmynd af Aris og Mola

Jæja, ég held ég sé búin að ræna nóg af myndum í bili, þið kíkið bara á bloggið hennar Fjólu ef þið viljið sjá meira.

1 comment:

Anonymous said...

Hæ hæ

Þú þarft nú að skella jólafróðamyndinni í jólamyndakeppnina á hvuttar.net

kv. Davíð