Saturday, December 15, 2007

10 dagar til jóla



Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Dagurinn hófst á smákökubakstri með mömmu. Við ákváðum að gera Spesíur og einhverskonar möndlutoppa. Spesíurnar heppnuðust bara vel, en topparnir urðu heldur flatneskjulegir og enduðu ævi sína í ruslatunnunni. Ég og mamma vorum þó ekki búnar að gefast upp á bakstrinum á þessum tímapunkti heldur útbjuggum við piparkökudeig, sem við bökum kökur úr á morgun. Það var algerlega brjálað veður í dag og við þurftum oftar en einu sinni að vinda vatn uppaf forstofugólfinu. Meira að segja pósturinn átti frí í dag, slíkur var veðurofsinn.
Ég hringdi svo í MF skólann í Noregi eftir hádegi og fékk takmarkaðar upplýsingar á bjagaðri ensku, þess efnis að ég ætti að senda mail á alþjóðlega tengilið skólans, sem ég gerði. Ég hef þó ekkert svar fengið enn.
Ég átti að vera á kvöldvakt í kvöld, en yfirmaður minn hringdi og bað mig að koma á næturvakt í staðinn, sem útskýrir tímasetningu þessara skrifa. Ég var því heima hjá mömmu og pabba í kvöld. Kári og Lára kíktu við til að ná í stóla sem þau fengu lánaða, þar sem þau voru að halda partý heima hjá sér. Ég hafði útskýrt fyrir Kára fyrr um daginn hvað ég væri að íhuga með Trítlu og hann sagðist um leið vera tilbúin að passa hana fyrir mig þegar ég væri úti. Lára undirstrikaði það svo þegar þau komu um kvöldið. Ég er þakklát fyrir það og finnst gott að vita af því, en gallinn er að þau eru að sækja um á stúdentaíbúðum og ég held örugglega að þar séu engin gæludýr leyfð :( En það er ekki alveg víst þau fari á garðana. Eftir að þau voru farin horfði ég á kafbátamynd með pabba áður en ég drattaðist hingað í vinnuna. Hér hef ég svo verið í mestu makindum að horfa á sjónvarpið og skrifa jólakort.
Ég læt þetta duga í bili og vona að þið sofið værum svefni núna.

3 comments:

Fjóla Dögg said...

Hæ sæta

Verum í bandi í dag þegar þú vaknar.

kv Fjóla og Moli

Helga said...

Já, endilega. Ég ætla að vakna helst ekki seinna en kl. 2 ;)
Kveðja, Helga og voffalingarnir

Anonymous said...

Oo það er svo jólalegt að baka sérstaklega ef maður hlustar á jólatónlist á meðan :)

Kristín, Sóldís og Aris