Tuesday, December 25, 2007

Gleðileg jól


Jæja, þá eru jólin gengin í garð. Ég hef haft í mörgu að snúast síðustu daga og ég var á næturvöktum alveg framá þorláksmessu. Á laugardeginum kíkti ég í jólaboð í vinnunni og fór svo með Kötu í Kringluna að versla síðustu gjafirnar. Við enduðum svo á því að fara á kaffihús og fá köku og jólaöl. Á Þorláksmessu kláraði ég að pakka inn síðustu gjöfunum og fór svo að skreyta jólatréið með pabba. Ég, pabbi, mamma og María fórum svo á jólahelgistund í Friðrikskapellu rétt fyrir miðnætti. Það er orðið hefð hjá okkur að fara þangað á Þollák og mér finnst það svaka jólalegt og notalegt. Á aðfangadag fór ég að keyra út gjafir. Ég var rétt búin að fara á einn áfangastað og var að beygja inná nýbílaveg þegar keyrt var aftan á mig. Ég fékk slæman hnykk á hálsinn og aumingja Fróði fékk smá áfall líka. Strákurinn sem keyrði á mig var mjög almennilegur. Ég hringdi á lögregluna sem kom og tók skýrslu af okkur. Ég var í fullum rétti, sem betur fer. Rauður skemmdist töluvert að aftan, en ég hef samband við tryggingarnar milli jóla og nýárs og kem með hann í skoðun. Ég hélt þau ótrauð áfram jólaútkeyrslunni, en var komin heim um fjögurleytið. Þá var ég farin að finna verulega til í bakinu, öxlinni og hálsinum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að fara uppá slysó. María bauðst til að koma með mér og ég var mjög þakklát fyrir það. Á biðstofunni var fyrir einn strákur. Hann var á aldur við Maríu og hafði greinilega lent í alvarlegum slagsmálum. Hann var líka augljóslega undir áhrifum fíkniefna. Ég og María biðum í klukkutíma eftir að fá að tala við lækni, en hann skoðaði mig og tilkynnti mér að þetta væri slæm tognun í hálsi, vinstri öxl og baki. Hann skrifaði svo uppá nokkrar pillur handa mér. Ég og María héldum svo burt af slysadeildinni, en ungi strákurinn sem ég minntist á áðan elti okkur. María spurði hann hvert hann ætlaði, en þá sneri hann við og þóttist ætla í aðra átt. Ég og María hröðuðum okkur að bílnum, en þá var strákurinn rétt fyrir aftan okkur. Við rétt náðum að hoppa uppí bíl, læsa hurðum og tættum í burtu áður en honum tókst að opna hurðina farþegamegin.
Þegar við komum heim var korter í jólin og við skiptum um föt í hvelli. Kvöldið var rosalega fínt.Hamborgarahryggurinn var algjört lostæti og sömuleiðis heimalagaði ísinn í desert. Því miður gat María ekki notið neins þessa þar sem hún var komin með ælupest og hélt engu niðri. Efir matinn opnuðum við pakkana, sem voru ófáir. Ég fékk fullt af frábærum gjöfum og er rosalega þakklát! Fyrir nóttina fór ég út með hundana í yndislega fallegt jólaveður. Það var alveg hljótt og logn og snjóflygsurnar svifu hægt og hljóðlátlega niður á hvíta jörðina.
Í dag, jóladag, fór ég í elliðaárdalinn með mömmu og hundana. Annað hef ég nú ekki afrekað, nema þá að borða súkkulaði og skoða gjafirnar mínar. María og Gísli eru hjá Indí, mömmu Gísla núna. Um fjögurleytið hringdi María, en þá var Húgó, hundurinn hennar Indí týndur og þau úti að leyta að honum. Ég setti auglýsingu á hundaspjöllin og nokrku síðar hringdi einhver sem sá auglýsinguna og gat bent þeim á hvar Húgó væri. Hann er því kominn í faðm fjölskyldunnar núna, Guði sé lof!
Ég er öll skökk og skæld og helaum í hálsinum. Mig hálfkvíður fyrir því að fara í vinnuna á morgun í þessu ástandi, en vonandi hefst þetta allt saman.
Ég óska ykkur annars öllum gleðilegra jóla. Megi Guð blessa ykkur og setja frið sinn og gleði í hjörtu ykkar þessi jól.
Jólakveðjur, Helga, Fróði og Trítla

3 comments:

Anonymous said...

Gleiðileg jól og takk æðislega fyirr allar gjafirnar ótrúlega flott :)
Vonandi batnar þér sem fyrst sjáumst á morgun vonandi :D

Kveðja Kristín, Sóldís og Aris

Anonymous said...

takk sömuleiðis við Moli erum alveg í skýunum.
Við fórum líka út þegar snjóaði svo mikið í gær og vá hvað það var gaman náðum að draga davíð með okkur Moli gjörsamlega tapaði sér í snjónum.
Væri gana að skella sér í göngu með öllum meðan snjórinn er. Ég er að fara í boð í fyrstalagi um 16 og er laus þangaðtil.
Rosalegt að heyra þetta með áreksturinn ég hefði að veg brotnað niður hefði ég lent í þessu en þú NNNEEEIIIII ekki séns þú ert alveg ótrúleg Helga. Ég vona ða þessi verkur fari sem allra allra fyrst svo þú getir notið jólahátíðarinnar til fullnustu.
Sakna þín og Moli saknar ykkar líka. Hringi kanski í þig í dag ef við náum ekki að hittasts.

Kær kveðja Fjóla og Moli

Kær kveðja Fjóla og Moli

Helga said...

Oh, ég væri sko alveg til í göngu, en ég er að vinna til fjögur í dag, því miður. Ég er þó á kvöldvakt á morgun og þá getum við kannski skellt okkur? Takk fyrir batakveðjurnar, ég hef það alveg sæmilegt núna og er bjartsýn á að þetta lagist fljótlega :)
Allavega, ég hlakka til að sjá þig, farin að sakna þín og Mola (og Fróði og Trítla líka).
Endilega sláðu á þráðinn :)

Jólakveðja, Helga og voffarnir