Thursday, June 27, 2013

Skírn og jarðaför

Á sunnudaginn skírði ég lítinn dreng ásamt því að hafa predikun í Drevja kirkju. Það var alveg frábær upplifun og gekk vonum framar. Á frídeginum mínum daginn eftir vaknaði ég við skilaboð frá vinnunni um að mín biði jarðaför í næstu viku og númer hjá þeim sem ég átti að setja mig í samband við. Ég notaði svo frídaginn í göngutúr með Nóa í fallegu veðri á Marsöra og náði að slaka aðeins á fyrir vinnuvikuna sem beið mín. Á þriðjudaginn var ég svo með 2 skírnarsamtöl, sem gengu ljómandi vel og á miðvikudaginn skrifaði ég predikun fyrir guðsþjónustu í Hattfjelldal næsta sunnudag, þar sem hann Sverre mun aðstoða mig. Dagurinn í dag fór í undirbúning á guðsþjónustunni á sunnudag og svo jarðaför í næstu viku. Í dag var svo mitt fyrsta sorgarsamtal, sem gekk einnig mjög vel. Ég hef eiginlega komið sjálfri mér svolítið á óvart þessa vikuna, hef verið frekar róleg þrátt fyrir margar nýjar áskoranir og er bara nokkuð sátt við hvernig ég hef staðið mig hingað til. Næsta vika verður þó kannski sú erfiðasta hingað til, þar sem ég þarf að leiða guðsþjónustu ein og halda jarðarför ein. En ég tek einn dag í einu, og helst bara eitt skref í einu, þá hefst þetta. Ég hef enn ekki fundið neina íbúð sem myndi henta mér, það eru nær engar íbúðir auglýstar á leigumarkaðnum hérna, en mig er virkilega farið að langa að komast úr hótelherberginu og yfir í eitthvað rýmra og notalegra. Það er því meðal þess sem fer á bænalistann fyrir næstu viku :)

Að lokum, mynd sem ég tók á kvöldgöngunni okkar Nóa.

Friday, June 21, 2013

Gleðilegt miðsumar :)

Það er alltaf eitthvað að gera á skrifstofunni og áður en maður veit af er vinnudagurinn búinn og næsta vinnuvika handan við hornið.Sú næsta hefst með Guðsþjónustu í líttilli kirkju um hálftíma héðan, Drevja kirke, á sunnudag þar sem ég mun predika og skýra lítinn dreng! Ég er spennt og pínu stressuð, en er búin að æfa mig smá á hárprúðri dúkku, auk þess sem Nói hlýtur að teljast sannkristinn voffi núna.  
Í dag missti ég af föstudagskaffinu á skrifstofunni þar sem við Magne vorum með jarðaför í Greve kirkju. Ég hafði bara lítið hlutverk í athöfninni, og var aðallega að fylgjast með og verða betur undirbúin undir jarðaförina sem ég mun taka að mér í næstu viku. Ein af áskorunum verður að leiða sönginn í kirkjugarðinum, þar sem það eru ekki margir norskir sálmar sem ég kann. 
Í dag tók ég ákvörðun um að doka aðeins við hér í Mosjöen. Ég talaði við námsráðgjafa hjá gamla skólanum mínum, MF, og hef ákveðið að stunda nám samhliða vinnunni minni hér. Það þýðir að ég verð hér í Mosjöen framá haust 2014 og fer þá suðurávið til að ljúka námi og avsluttende praktikum, eða starfsnámi og mun útskrifast með gráðu þaðan í lok árs 2014. Þá hef ég öðlast mikla og dýrmæta reynslu hér, auk þess sem ég get lagt einhverja aura til hliðar fyrir heimförina.
Á morgun er ég búin að panta gott veður því þá ætla ég í góðan göngutúr með Nóa áður en ég fer í Biblíuleshóp heim til Magna og konunnar hans í Mo i Rana, sem er í um 1.5 klst fjarlægð frá Mosjöen. Á sama tíma á Íslandi munu samnemendur mínir í Guðfræðideildinni taka við prófskírteini. Það er skrýtið að hugsa til þess að vera ekki heima og fagna með þeim og Kristínu vinkonu sem útskrifast einnig á morgun.  En mín útskriftarveisla verður að bíða betri tíma.
Það er þó bót í máli að eftir guðsþjónustuna á sunnudag, hefur Kari boðið mér í mat með fjölskyldu sinni, en líkt og aðrir Norðmenn halda þau uppá Sankthans, eða miðsumar núna um helgina. Sankthans er kirkjuleg hátíð til minningar um Jóhannes skírara. Í tilefni þess verður eitthvað um hátíðarhöld hér í bænum, en búið er að setja upp markað á torginu við Sjögata. 

Tuesday, June 18, 2013

Fyrsta vinnuvikan búin

Dagarnir líða hratt hér í Mosjöen, sem er kannski ágætt þar sem þá gefst ekki of mikill tími til að hafa áhyggjur af morgundeginum eða vera með heimþrá. Á sunnudag tók ég þátt í hátíðarguðsþjónustu í Dolstad kirkju, það var virkilega skemmtileg upplifun, kirkjan, sem er frá 18. öld, var pakkfull og alls voru 6 börn skírð þennan dag. Mánudagurinn 17. júní var fyrsti frídagurinn minn hér í Mosjöen. Það er alltaf dagurinn sem maður fær heimþrá, sjálfur þjóðhátíðar dagur okkar íslendinga, en venjulegur dagur hér í Mosjöen. Ég hélt uppá hann með því að versla mér föt á sumarútsölu hér í bænum. 
Dagurinn í dag byrjaði svo með starfsmannafundi kl 8:30 þar sem farið yfir undafarna viku og verkefni sem framundan eru. Það er undarleg tilhugsun að ég hafi unnið heila vinnuviku nú þegar hér í Mosjöen. En mér líður nú þegar einsog ég sé hluti af liðsheildinni, sem er virkilega góð tilfinning. Í fyrsta sinn finnst mér ég virkilega eiga heima þar sem ég vinn. Í kvöld fór ég með séra Magne á bóndabæ í nágrenninu, til að fylgjast með sorgarsamtali. Það gekk mjög vel og á föstudag mun ég taka þátt í sjálfri jarðaförinni með Magne. Í næstu viku er svo komið að mér, þá mun ég taka að mér jarðaför frá a-ö alein. Ég hef pínu blendnar tilfinningar gagnvart því, en er töluvert rólegri en ég átti von á að ég myndi vera. 
Magne var svo indæll að keyra með mig aðeins um bæinn og sýna mér góða staði til að fara í göngutúr með Nóa. Við enduðum svo kvöldið á að kíkja i heimsókn til Marte og Øyvind, mjög indæl hjón sem eru bæði organistar hér í Mosjöen. Það var virkilega notalegt að heimsækja þau og koma inná alvöru heimili. Útsýnið frá veröndinni þeirra er stórkostlegt og engin spurning að verði ég lengur hér í Mosjöen mun ég reyna að fá íbúð þar. 
Á morgun verður nokkuð rólegri dagur á skrifstofunni, hitt og þetta sem ég þarf að gera, meðal annars undirbúa skírn og predikun sem ég mun vera með næstu helgi í Drevja kirkju. 

Að lokum læt ég fylgja með mynd tekna inní Dolstad kirkju, ég sat vinstra megin við altarið og gyllti engillinn Gabríel var lækkaður niður úr loftinu og skálin sem hann heldur á var fyllt af skírnarvatninu.


Saturday, June 15, 2013

Fyrstu dagarnir í Mosjöen


Í dag hef ég verið í Mosjöen í 5 sólarhringa. Það er skrýtið að hugsa til þess að það séu einungis 5 sólarhringar miðað við allt sem hefur gerst á þessum tíma. Og enn meira á síðustu 10 sólarhringum, eða frá því ég keyrði um borð í Norrænu austur á Seyðisfirði. Fyrstu dagarnir hér hafa verið erfiðir. Til að gera langa sögu stutta hafði orðið misskilningur við ráðningu mína og taldi samstarfsfólk mitt að ég væri reyndur afleysingaprestur sem gæti stokkið í hvaða verkefni sem er án nokkurar leiðsagnar. Í samráði við prófastinn ákváðum við að gera það besta úr stöðunni og ég fæ því 2ja vikna skyndinámskeið í því að halda jarðafarir, guðsþjónustur og skírnir í kirkjunum hér í Vefsn kommune áður en ég þarf að spjara mig á eigin spýtur. Það er mjög undarlegt að hugsa til þess og engin spurning að næstu vikur munu vera erfiðar en um leið lærdómsríkar. 

Í gær fór ég til Hattfjelldal ásamt prófastinum og heilsaði uppá sóknarnefndina og tók svo þátt í fermingarmessu, sem fermingarbörnin í Hattfjelldal höfðu undirbúið. Í dag fór ég svo með Kari, kvenprestinum, til Elsfjord, einstaklega fallegur bær með gamla sjarmerandi kirkju þar sem ég og Kari héldum guðsþjónustu í dag. Ég kom sjálfri mér á óvart og tónaði! Það var virkilega gaman og ég fékk mjög jákvæð viðbrögð frá Kari, Marte, organistanum og kirkjuþjóninum.Þessa mynd fann ég á netinu af Elsfjord, en næst mun ég taka myndir sjálf, enda einstaklega fallegur lítill bær.



Í kvöld var ég svo á fínu hóteli ásamt samstarfsfólki og borgastjóranum hér í Mosjöen þar sem haldið var uppá að Dolstad kirkja væri enduropnuð eftir að vera enduruppgerð fyrir 400 milljónir.  Á morgun verður svo hátíðarguðsþjónusta í Dolstad kirke þar sem ég mæti og verð kynnt fyrir söfnuðinum og fer með bæn. Þar sem ég er ekki komin með alba, eða prestakjól ennþá, mun ég vera í fermingarkyrtli yfir skyrtunni með kraganum.Á mánudag, sjálfan þjóðhátíðardaginn, kemur svo langþráður frídagur, en hann mun ég nota til þess að kanna bæinn og svæðið um kring aðeins betur og ef veðrið er gott verður myndavélin með í för.