Friday, October 31, 2008

FRÓÐI 3 ÁRA!!!

Afsakið bloggleysi undanfarinna daga! Ég hef verið á haus í verkefnavinnu, enda varð ég að vera búin með mest allt áður en Fjóla kæmi. Á sunnudaginn fór ég með Höllu í Frederikstad og lærði á meðan hún kenndi börnunum tveim sem mættu í sunnudagaskólann. Við fórum svo á Pizza stað þar sem við biðum í einn tíma og enginn pizza kom!!! Við vorum nú ekki sáttar en yfirgáfum bara svæðið og fórum í bíó á Eagle Eyes, sem er bara ágætis mynd. Við áttum svo bara fínan tíma saman, einar með stóra húsið og dunduðum okkur við hitt og þetta. Á miðvikudaginn var allt hvítt af snjó þegar ég vaknaði og við máttum ekki við að bæta viði á arininn til að reyna kynda húsið. Ég fór svo í gær á lestarstöðina og náði í Fjólu!!!! Það er alveg geggjað að hafa hana í heimsókn og við erum á leiðinni niðrí bæ á eftir að gera eitthvað skemmtilegt. Fróði kallinn átti afmæli í gær og varð 3 ára!!! Fjóla kom með lifrapylsu handa honum og hann fékk poka fullan af gotteríi frá Kristínu! Ég fékk svo líka myndir og svaka fína gjöf frá henni! Takk Kristín ! :x Þetta var nú ekki allt búið enn heldur hafði mamma keypt handa mér svaka flotta úlpu sem ég vígði í skólanum í dag og fullt af dönskum krónum fyrir ferðalagið til Maríu næstu helgi. Takka mútta!!! Núna er ég komin með íslenskar flatkökur í frystinn og hangikjet í ísskápnum. Ég er alveg alsæl og afar þakklát.
Knús og þakkarkveðjur :)

Sunday, October 26, 2008

Helga and Halla's days of fun!!!!

Þetta hefur hingað til verið hin fínasta helgi. Ég og Halla erum búnar að horfa á The Hulk og Vantage Point í risa stóra fljatskjánum hérna, einnig gerðum við nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að skrappa, við vorum með helling af skrappdóti og til í slaginn, en vantaði bara myndirnar!!! Í gær fékk ég mér ristað brauð og það gekk ekki betur en svo að það kviknaði í ristavélinni!!! Ég vil brauðið mitt vel ristað en fyrr má nú vera! Ég kallaði í ofboði á Höllu og hún kom á harðaspretti og blés á eldinn, sem betur fer dugði það til. Við fórum svo til Ski í gær á bílnum og vorum eflaust rúman klukkutíma að keyra þessa 10 mínútna leið. Það er að segja ef við hefðum farið rétta leið. Við fórum í allskonar hringtorg, króka og beygjur og ég heimtaði að kíkja inní allar gæludýrabúðir sem yrðu á vegi okkar. Á endanum kom Klara á bílnum og lóðsaði okkur heim. Þar biðu okkar brownies sem Íris hafði bakað og það var mjög gaman að heilsa uppá hana og Helenu litlu. Hún er alltaf jafn hrifin af Fróða, það má nú deila um það hvort sú hrifning sé endurgoldin, en Fróði leyfir henni þó allt. Íris er svaka fín mamma og passar vel uppá að litla skottan fari varlega þegar hún klappar honum.
Í dag rétt drösluðumst við á fætur þegar klukkan mín hringdi klukkan 9. Ég var nottlega búin að gleyma því að við græddum einn tíma í dag þar sem klukkurnar voru færðar yfir á vetrartíma klukkan þrjú í nótt. Halla fer í Frederikstad á eftir og verður með sunnudagaskóla fyrir íslensku börnin í íslenska söfnuðinum. Það á eftir að koma í ljós hvort ég komi með eða hvorti ég verði að vera hér heima og læra. Verkefnavinnan gengur ekki alveg nógu hratt hjá mér, enda freistandi að gera ýmislegt annað :Þ
Fjóla bestasta kemur svo eftir minna en viku og ég bara trúi því ekki! Tíminn líður svo hratt og ég get ekki beðið eftir að fá hana hingað. Ég talaði svo við Maríu á Skype í gær, en við höfum mikið verið að spá hver væri besta og ódýrasta leiðin fyrir mig að fara til hennar. Við fundum flugmiða á 1100 krónur sem fer klukkan 18 á fimmtudag og til baka kl. 7 á mánudagsmorgni. Það verður líka gaman að heimsækja Maríu og hitta Hjalta í leiðinni. Það er semsagt nóg að gera framundan. Halla er mikið að spá hvað hún ætlar að gera í framtíðinni og við erum búnar að ræða fram og til baka möguleikann að vera hér áfram og hún getur vel hugsað sér það. Hver veit svo nem við gætum seinna meir leigt saman, sem væri líka æði. En þetta eru allt pælingar og líka fyrirbænarefni að Halla fái sannfæringu fyrir hvað hún á að gera.
En nú er kominn tími til að borða morgunmat, kæru vinir. Eigið góðan dag.
Knús og saknaðarkveðjur!

Tuesday, October 21, 2008

Komin tími á smá skrif hérna...

Ég átti ágætis helgi, fór í mat til Elinar á laugardaginn og við fórum svo saman á samkomu í Missjonsalen. Eftir á fórum við, ca 15 manna hópur, heim til Elinar og spiluðum mjög skemmtilegan leik. Ég var svo keyrð heim að dyrum klukkan tvö um nóttina eftir skemmtilegt kvöld. Það hefur verið mikið að gera þessa vikuna í skólanum og ég er byrjuð að vinna í næsta stóra verkefni sem ég þarf að klára áður en Fjóla kemur, sem er btw eftir viku og einn dag!!! Ég gat tekið smá pening útúr hraðbanka í fyrradag svo ég gat fengið mér góða máltíð í skólanum í dag. Ég fékk óvænta símhringingu í dag frá Elin sem sagði mér að hún og fjölskylda og vinir hefðu safnað smá pening handa mér, ég vissi ekki alveg hvað ég átti að segja við þessu, en ég er mjög þakklát að þau hafi hugsað til mín.
Í kvöld þarf ég að pakka saman fötum, námsbókum og skrappdóti því ég er að fara að flytja til Höllu framyfir helgina, eða á meðan hún er ein í húsinu. Það verður geggjað stuð hjá okkur, vonandi samt ekki það mikið stuð að ég gleymi að glugga í bækurnar!

Tuesday, October 14, 2008

Að treysta Guði....

Ég fór á samkomu í Storsalen á sunnudaginn með Höllu og það var svakalega fínt. Þrátt fyrir að þar væru um 500 manns, aðallega ungt fólk, var notaleg stemming og ég var mjög hrifin af tónlistinni. Í dag og í gær hef ég ekki komið heim úr skólanum fyrr en klukkan 5 svo ég er orðin heldur þreytt og vikan rétt byrjuð. En það er nú ekki mikið af fyrirlestrum eftir, bara einn fyrirlestur sem er í fyrramálið og svo seminargruppe á föstudaginn.
Ég hef barist soldið við kvíðann síðustu daga og þá aðallega vegna ástandsins heima. Ég hef enn ekki getað tekið útaf námslánareikningnum mínum og ég vona og bið að ástandið fari að lagast. Ég veit að Guð hefur þetta allt í hendi sinni og fyrir Honum er þetta ekkert mál, en það er samt sem áður erfitt að vera í óvissunni á meðan stormurinn geisar heima.
Myndir segja meir en þúsund orð og þessi lýsir því bara nokkuð vel hvernig mér líður ákkúrat núna!Ég talaði soldið við Miriam í skólanum í dag og ég brotnaði niður þegar ég fór að útskýra allt þetta fyrir henni og hversu miklum áhyggjum þetta ylli mér. Það var mjög gott að tala við hana því hún er mjög skynsöm og vissi einhvern veginn hvað hún átti að segja til að uppörva mig. Ég skammaðist mín fyrst, en er nú hálf fegin að ég táraðist þegar ég talaði við hana því ég þurfti bara að tala við einhvern sem sýndi þessu skilning. Því miður eru sumir fjölmiðlar sem grín að ástandinu á Íslandi, svipað og í Danmörku. Fólk skilur ekki alvarleika málsins eða hversu hörmulegar afleiðingar ástandið hefur nú þegar haft í för með sér. . Það er ekki auðvelt að vera Íslendingur þessa dagana, hvorki heimafyrir né erlendis, en ég mun, eins og sannur Íslendingur, alltaf taka málstað minnar þjóðar og leiðrétta misskilning og mótmæla ósanngirni. Ég hef ákveðið að fara sjaldnar inná íslensku fréttasíðurnar, yfirleitt eru fréttirnar neikvæðar og valda mér bara meiri kvíða. Á morgun fer ég og hitti námsráðgjafann minn eftir fyrirlesturinn og það verður eflaust gott að tala við hana líka.
Ég er svo byrjuð að lesa skáldsögu á norsku, svona til hliðar við námsbækurnar, sem ég reyni að glugga í þegar ég er í strætó til að byggja upp orðaforðann enn hraðar.
Á morgun fer ég til Höllu eftir skólann og við gerum eitthvað skemmtilegt saman. Hver veit svo hvort manni verði boðið í mat á þeim bæ líka einsog venja er orðin, það væri allavega ekki verra. Á fimmtudaginn á ég frí og þá er planið að taka aðeins til hér heima og klára bokrapporten sem ég á að skila á föstudag.
Ég heyrði svo í Elin í dag sem var með mér á Capernwray (ekki Emilie sem ég heimsótti um daginn). Það var mjög gaman að heyra í henni og hún bauð mér í mat til sín á laugardaginn og svo á samkomu í Mission salen. Ég bara veit að Guð hefur lagt það á hjarta hennar að hafa samband við mig núna og það er gott að hugsa til þess að ég verði ekki ein alla helgina.
Guð blessi ykkur

Saturday, October 11, 2008

Krepputími

Sælt veri fólkið. Það má nú segja að ýmislegt hafi borist til tíðinda þessa vikuna, eins og allir Íslendingar vita. Á meðan þessar hörmungar dynja yfir litla landið okkar hef ég reynt að einbeita mér að náminu hér í Noregi. Það hefur verið nóg að gera í skólanum þessa viku og á þriðjudeginum fór ég í Moskvu með skólanum. Það var mjög áhugavert. Við stúlkurnar þurftum að hafa sjal á höfðinu til að fela hárið og allir þurftu að byrja á því að fara úr skónum áður en við fórum inní hið allra heilagasta. Það var semsagt stór teppalagður salur með altari fyrir miðju. Þar var útskorinn stóll sem var samkvæmt öðrum kyrtilklædda leiðsögumanninum eftirlíking af stól sem Múhammed á að hafa setið í, eftir því sem ég best skildi. Þetta var allt hálfkjánalegt fannst mér samt. Þetta voru semsagt tveir kyrtilklæddir menn sem áttu að kynna þetta fyrir okkur og annar sat á gólfinu og sagði eitthvað á arabísku sem hinn svo túlkaði. Á veggjunum voru spjöld sem á stóð að fólk ætti að slökkva á gemsanum sínum. Í miðri setningu hjá öðrum kynnanna hringdi svo síminn hans og hann gerði sér lítið fyrir og svaraði í hann. Stuttu seinna hringdi síminn hjá þeim sem sat á gólfinu líka og honum þótti það greinilega ekki óviðeigandi að svara í hann líka. Þá var manni eiginlega nóg boðið. Þarna áttum við að koma með einhverja klúta á hausnum því allt á þetta að vera svo háheilagt..... æ, ég segi ekki meir. Bara að mér þótti ekki mikið til þessa koma. Inní moskvunni var svo námsherbergi þar sem krakkar gátu komið og fengið námsaðstoð sem er samvinnuverkefni við Rauða Krossinn þar í landi. Mjög spes.
Ég skrifaði svo skýrslu um heimsóknina á norsku með hjálp Camillu vinkonu minnar sem er með mér í bekk. Við spjölluðum heilmikið saman í gær en mér líkar afar vel við hana. Hún er alveg vitlaus í öll dýr og að sjálfsögðu þvílíkt hrifin af Fróða. Ég sagði henni að ég væri að fara að heimsækja Maríu í nóvember og hún bað mig um að fá að passa hann! Ég er ekkert smá ánægð og veit að Fróði verður í þvílíku dekri hjá henni og kærastanum hennar.
Annars hef ég fylgst daglega með því sem er að gerast í efnahagsmálum heima og það var vægast sagt furðulegt að hringja í Kaupþing í fyrradag og fá þær upplýsingar að ég gæti ekki framkvæmt símgreiðslu á milli Íslands og Noregs. Ég fékk eiginlega hálfgert sjokk, en ég er vongóð um að ég fái aðgang að peningnum mínum eftir helgi.
Ég fékk reyndar sama dag mjög magnað vers í tölvupóstinn (fæ eitt á hverjum degi):
8Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.
II Kor 9:8
Ég ætla að halda fast í þetta vers á þessum erfiðu tímum og vona að það verði ykkur einnig huggun og hughreysting.
Guð blessi ykkur öll og landið okkar góða

Sunday, October 05, 2008

Akerbrygge og Tíbbahittingur

Jæja, gott fólk. Þetta hefur verið viðburðarrík helgi. Ég skilaði Krisnisöguverkefninu á fimmtudag, vel innan tímamarka og vona og bið að það verði godkjent. Á föstudeginum þvoði ég þvott og tók til hendinni í litlu íbúðinni minni. Í gær heyrði ég aðeins í Fjólu, sem var alveg æðislegt. Svo hitti ég Höllu og við fórum í Pet Shop Girls og ég keypti hina langþráðu tösku handa Fróða. Fróði var vægast sagt sáttur við þessi kaup og vildi helst ekki fara úr henni. Ég og Halla fórum útum allt með litla töskuvoffann. Við tókum trikken á Akerbrygge þar sem við fengum okkur hamborgara. Það var bleikur dagur, gegn brjóstakrabbameini.


Akerbrygge og bleikir borðar í tilefni bleika dagsins
Hundruðir brjóstarhaldara héngu á snúru.
Fyndin sjón
Ég
Ég og Fróði stilltum okkur upp með nýju töskuna
Ég og dýrið
Við stöllurnar

Við fórum svo heim til Höllu. Hún ákvað að kenna mér nokkrar hárgreiðslur fyrir skólann.
Það hljóp smá svefngalsi í okkur og þetta var útkoman!
Erum við ekki smart!!!
Það var engin miskunn, Fróði greyið var gripinn.
Blómarósin mín.


Í dag hitti ég tvo tíbbaeigendur hjá Ekeberghallen.

Fróði og Maico. Fróði varð fljótt foringinn, þrátt fyrir að vera 2 árum yngri en Maico og geldur, en þeim lenti nokkru sinnum saman, ekkert alvarlegt samt.


Maico er 5 ára og er nú á sínu sjötta heimili. Hann er mjög tíbískur tíbbi, hlýðir engu nema þegar honum sýnist, en er afar rólegur og góður. Hann fer með eiganda sínum, Kari, sem er kennari í skólann. Mér líkaði afar vel við Maico og ég hjálpaði eiganda hans með að kenna honum og standa og labba fínt því hún ætlar að sýna hann.

Við viljum nammi!!!

Gizmó litli er bara fjögurra mánaða. Hann er algjör rófa og bar nákvæmlega enga virðingu fyrir Fróða. Fróði var verulega pirraður útí hann fyrst og var alltaf að taka í hann. En litli stubburinn bara gafst ekki upp og á endanum voru þeir orðnir ágætis félagar. Þessi litli hvolpur er þvílíkt orkubúnt og þreyttist ekki á að reyna að fá Fróði í leik. Algjör töffari sem hræddist ekki neitt.

Sætur

Maico myndarlegur

Litli kallinn minn

Fróði og Gizmo

Eltingaleikur

Þetta var mjög skemmtilegur hittingur. Því miður var mætingin heldur dræm, en vonandi getum við haft svona hitting aftur fljótlega. Fróði var allavega mjög sáttur með þetta og þetta gerði honum afskaplega gott hugsa ég.

Ég er búin að hlaða fleiri myndum inná myndasíðuna mína svo endilega kíkið þangað, en ég set eitthvað af þeim hingað inn fljótlega.

Wednesday, October 01, 2008

Verkefni og verkkvíði

Ég er búin að eiga ágætis helgi, ég náði reyndar ekki að vinna jafnmikið með verkefnið og ég vildi en ég kíkti í Pet Shop Girls til að kaupa töskuna. Því miður gat ég ekki tekið út nógan pening í hraðbankanum til að kaupa hana, en það var bara ein eftir og ég lét taka hana frá. Fróði mátaði hana og var mjög sáttur, en við förum þangað næstu helgi að kaupa hana.
Krónan fellur og fellur og norska krónan er að nálgast 19 krónur íslenskar! Þetta er hræðileg þróun og ekki það sem fátækur námsmaður í Noregi þarf á að halda (eða nokkur annar).
Ég er búin að vera á haus síðustu daga að vinna í verkefninu. Ég á mjög erfitt með einbeitingu og verkkvíðinn er að plaga mig alveg hrikalega. Ég er búin að skrifa þrjár síður af fjórum í dag en verkefninu á að skila fyrir miðnætti á morgun.
Ég þarf að vakna klukkan sex í fyrramálið og byrja á að fara í seminargruppe. Þvínæst kíki ég til námsráðgjafans og sýni henni það sem ég er búin með af verkefninu. Vonandi getur hún hughreyst mig eitthvað svo ég orki að klára þetta á morgun.
Ég var í mat hjá Höllu á mánudag og missti af strætónum mínum heim svo ég gisti bara hjá henni og tók svo strætóinn beint í skólann daginn eftir. Við ætlum að hittast um helgina, en hún vill endilega að ég kíki á samkomu hjá íslenska söfnuðinum á sunnudag. Á mánudag er mér boðið í mat til Emilie og Kjetil sem er maðurinn hennar og ég hlakka til.
Ég fann svo hina fullkomnu jólagjöf handa mér á amazon:Guð blessi ykkur öll og þið megið endilega hafa mig í bænum ykkar varðandi þetta verkefni, að ég nái að klára það og gera þetta sæmilega.