Tuesday, June 18, 2013

Fyrsta vinnuvikan búin

Dagarnir líða hratt hér í Mosjöen, sem er kannski ágætt þar sem þá gefst ekki of mikill tími til að hafa áhyggjur af morgundeginum eða vera með heimþrá. Á sunnudag tók ég þátt í hátíðarguðsþjónustu í Dolstad kirkju, það var virkilega skemmtileg upplifun, kirkjan, sem er frá 18. öld, var pakkfull og alls voru 6 börn skírð þennan dag. Mánudagurinn 17. júní var fyrsti frídagurinn minn hér í Mosjöen. Það er alltaf dagurinn sem maður fær heimþrá, sjálfur þjóðhátíðar dagur okkar íslendinga, en venjulegur dagur hér í Mosjöen. Ég hélt uppá hann með því að versla mér föt á sumarútsölu hér í bænum. 
Dagurinn í dag byrjaði svo með starfsmannafundi kl 8:30 þar sem farið yfir undafarna viku og verkefni sem framundan eru. Það er undarleg tilhugsun að ég hafi unnið heila vinnuviku nú þegar hér í Mosjöen. En mér líður nú þegar einsog ég sé hluti af liðsheildinni, sem er virkilega góð tilfinning. Í fyrsta sinn finnst mér ég virkilega eiga heima þar sem ég vinn. Í kvöld fór ég með séra Magne á bóndabæ í nágrenninu, til að fylgjast með sorgarsamtali. Það gekk mjög vel og á föstudag mun ég taka þátt í sjálfri jarðaförinni með Magne. Í næstu viku er svo komið að mér, þá mun ég taka að mér jarðaför frá a-ö alein. Ég hef pínu blendnar tilfinningar gagnvart því, en er töluvert rólegri en ég átti von á að ég myndi vera. 
Magne var svo indæll að keyra með mig aðeins um bæinn og sýna mér góða staði til að fara í göngutúr með Nóa. Við enduðum svo kvöldið á að kíkja i heimsókn til Marte og Øyvind, mjög indæl hjón sem eru bæði organistar hér í Mosjöen. Það var virkilega notalegt að heimsækja þau og koma inná alvöru heimili. Útsýnið frá veröndinni þeirra er stórkostlegt og engin spurning að verði ég lengur hér í Mosjöen mun ég reyna að fá íbúð þar. 
Á morgun verður nokkuð rólegri dagur á skrifstofunni, hitt og þetta sem ég þarf að gera, meðal annars undirbúa skírn og predikun sem ég mun vera með næstu helgi í Drevja kirkju. 

Að lokum læt ég fylgja með mynd tekna inní Dolstad kirkju, ég sat vinstra megin við altarið og gyllti engillinn Gabríel var lækkaður niður úr loftinu og skálin sem hann heldur á var fyllt af skírnarvatninu.


2 comments:

Kári said...

Frábært að það gengur vel og fólkið er vinalegt. Þú átt eftir að standa þig eins og hetja í þessum predíkunum og jarðarförum. Rosalega flott kirkja, tókst þú myndina? Opnumyndin á blogginu er líka vægast sagt glæsileg :)

Helga said...

Takk fyrir það Kári minn. Nei, eg tók ekki myndina í kirkjunni, en hafði hugsað mér að fara þangað og taka mynd fljótlega. Hér er svo fallegt að mig dauðlangar að kaupa mér góða linsu og þrífót og taka myndir af fjöllunum og bænum hérna. Takk fyrir hrósið á opnumyndina :D Ég sá lítinn fugl á trjágrein hér um daginn, hann var svona gulgrænn og pínkulítill. Hlakka virkilega til að þú getir komið og heimsótt mig hérna, mjög flott fuglalíf hér í Mosjöen og margir fallegir staðir að skoða :D