Saturday, March 21, 2009

Innflutningspartý

Það hefur aldeilis mikið gengið á síðustu daga en helst er þó í fréttum að í gær var innflutningspartýið mitt. Ég var með þrjá dygga aðstoðarmenn til undirbúnings veislunni, en Halla og Kata löguðu súpu og bökuðu bollur á meðan ég og Camilla gerðum franskar súkkulaðikökur.
Camilla fór þó fyrst í tveggja tíma gönguferð með Fróða kallinn, sem var ekkert sérlega hreinn þegar þau komu heim:

Það var nottla ekkert annað í stöðunni ena ð henda kallinum í bað, enda gat hann ekki verið svona útlýtandi í innflutningspartýinu.
Hann var baðaður með dýrindis sápum og útmakaður í silkiolíu, burstaður og pússaður og þetta var útkoman:
Það var soldið stress að klára að gera allt áður tími væri kominn á gestina og hefði aldrei hafist án hjálpar, það er á hreinu. Ég henti mér í ískalda sturtu (allt heita vatnið fór í baða Fróða) og fór svo út á T banastöðina að sækja stelpurnar. Þegar við komum til baka voru snilldar aðstoðarmennirnir mínir búnar að kveikja á kertum, leggja á borð og gera allt kósi. Það vildi þó ekki betur til en svo að hellan réði ekki við að hita risa stóra potinn sem ég fékk lánaðan hjá Elsu til að gera íslensku grænmetissúpuna. Það var því ekkert annað í stöðunni en að banka hjá Elsu og fá að hita súpuna í eldhúsinu hennar. Það var alveg sjálfsagt og Kata stóð yfir súpunni meðan ég sinnti gestunum.
Súpan kom svo rjúkandi heit og fín upp tröppurnar og allir settust við borðið.
Það var nottla ekki hægt annað en að gretta sig smá framan í myndavélina:
Einasta myndin af okkur öllum:
Á myndinni að ofan er frá vinstri: Ég, Camilla, Halla, Kata, Miriam og Henriette. Marte situr svo fremst.

Henriette var í svaka stuði og reif af sér brantarana. Hún las svo fyrir okkur nokkrar norskar þjóðsögur


Eftir matinn voru kökurnar settar í ofninn. Camilla og Kata setja bökunarpappír í formið:

Halla sker jarðaber sem ég raða svo á kökuna

Fróða flúði undir stól á meðan til að vera ekki troðinn niður.

Ég stórefa að það hafi verið jafnmargir í eldhúsinu áður (BTW Fróði liggur við fæturnar á Camillu)

Kata og Camilla einbeittar

Miriam vinkona

Ég sýni glæsilegu girnilega kökuna

Namminamminamm :þ

Miriam fær fyrstu sneiðina

Það var sko nóg pláss fyrir alla í sófanum.
Frá vinstri: Camilla, Henriette, Marte, Miriam, Halla, Kata og Fróði

Svo nottla ein með mér líka :D

Þetta var æðislegt kvöld og ég hef ekki skemmt mér svona vel lengi. Ég fékk svo auðvitað pakka líka, Marte gaf mér rosa sætt hjarta sem hún saumaði og krukku með kerti í sem hún föndraði líka. Camilla gaf mér brauðhníf og box með gúmmíbjörnum sem á "að opnast í neyð". Kata og Halla gáfu mér svo geggjað flotta uppþvottahanska og bursta með blómamunstri.

Sunday, March 15, 2009

Við Fróði erum flutt á Jutulveien

Ég hef ekki verið nógu dugleg við að blogga síðustu daga, en nú ætla ég að bæta úr því. Hér hefur mikið gengið á. Ég er alflutt á Jutulveien 22 og er hæstánægð hérna. Íbúðin er bara æðisleg, nóg pláss en samt svaka kósí. Ég á nú eftir að koma mér alveg fyrir, ennþá eftir að pakka uppúr tveim kössum og setja myndir á veggina og svona. Ég stefni að því að hafa innflutningspartý hérna á föstudaginn. Þá verð ég búin að skila af mér KLT verkefninu (vonandi) og hef smá tíma til að taka til. Helgin hefur verið annasöm, ég fór á frjálsan tíma í hundafiminni í gær og það gekk sæmilega. Átti erfitt með að ná sambandi við Fróða því fólk og hundar voru alltaf að koma og fara, en ég náði samt að fá hann til að fara á vegasaltið og hoppa gegnum björgunarhringinn svo ég var sátt. Eftirá fórum við nokkur af æfingunni og á stórt bílastæði þar sem hundarnir fengu að hlaupa og leika sér. Þetta voru ca 10 hundar og helmingurinn stórir. Fróði var í essinu sínu og lék við alla, jafnvel Corgi karlhund sem er vanalega vill ekki blanda geði við aðra karlhunda.
Í dag hringdi Hrefna í mig klukkan hálftvö því ég átti að mæta í sunnudagaskólann. Það var fast í hausnum á mér að ég ætti ekki að mæta fyrr en í næstu viku svo ég hljóp út, en villtist á leið á T bana stöðina því ég reyndi að stytta mér leið og þegar ég loks fann T banastöð, 2 stoppum frá minni, rétt missti ég af bananum. Ég var ekkert smá fúl og varð að sleppa því að mæta í sunnudagaskólann, en fór í staðinn niðrí bókaforlag og þvoði.
Ég ætla svo að reyna að pæla eitthvað í KLT (kristen livstolkning) verkefninu í kvöld og vonandi setja eitthvað niður á blað. Efnið sem ég valdi er: "Kristen etikk er bare for kristne" drøft og ta stilling til denne påstanden. Á íslensku : "Kristin siðfræði er bara fyrir kristna" ræddu og taktu afstöðu til þessarar staðhæfingar.
Ég ætla að skrifa á norsku og vonandi tekst mér að koma einhverju niður á blað þegar ég verð búin að lesa smá, en þetta er áhugavert efni sem býður uppá marga möguleika.
Guð blessi ykkur og hafið það gott

Sunday, March 08, 2009

Nýja íbúðin

Ég var víst búin að lofa að koma með blogg og myndir í dag, svo það þýðir ekki að svíkjast undan því. Helgin hjá mér hefur verið vægast sagt atburðarrík. Föstudagurinn var vel pakkaður, hann hófst með ferð til Ski þar sem ég þreyf hjá Klöru, tók svo lestina niður í Osló þar sem ég hitti Elsu, nýja leigusalann minn. Við fórum saman í IKEA og ég valdi diska og bolla í stellið mitt og svo fórum við og kíktum á íbúðina sem er orðin svo flott, nýmáluð og fín. Að því loknu keyrði Elsa mig niður í bæ og ég fór á Akerbrygge þar sem ég hitti Kristjönu, sem var með mér í tíbbadeildinni heima, og systur hennar. Við settumst á kaffihús úti, með hitaljós og teppi og Fróði með auðvitað. Það var rosa fínt og við spjölluðum helling, aðallega um Fróða auðvitað. Kristjana tók helling af myndum af Fróða og nokkrar af mér og ég bað hana að skila kærum kveðjum til tíbbadeildarinnar þegar við kvöddumst. Ég tók svo banann til Kringsja, þaðan gekk til Nordberg kirke þar sem ég Kata, Halla og Arna höfðum mælt okkur mót. Þar var kvöldsamvera í tilefni alþjóðlegs bænadags kvenna. Við áttum rosa fínt kvöld saman með konum frá Noregi og Afríku, borðuðum pulsusúpu og brauð saman og deildum vitnisburðum. Ég fór svo heim til Höllu og gisti þar. Á laugardeginum var ég með mígreni og afrekaði ekki margt framan af, en um kvöldið keyrði Halla mig heim og hjálpaði mér að setja ofan í tíu kassa sem ég fékk að láni frá Örnu og Rúnari. Í morgun pakkaði ég aðeins meir og tók svo niður hillusamstæðuna með hjálp Höllu. Við brunuðum svo á bílnum hennar Örnu á Jutulveien í nýju íbúðina. Það tók okkur reyndar klukkutíma að rata í öllum þessum einstefnum og gatnaflækjum í Osló, og Kata sem ætlaði að hitta okkur þar var villuráfandi í slabbi og leiðindaveðri í klukkutíma áður en hún komst á áfangastað. Við fórum svo upp með kassa og hillusamstæðuna. Létum svo Kötu um að klára að setja hana saman á meðan við Halla brunuðum eftir meira dóti.
Við vorum svo orðnar vel þreyttar og svangar eftir að villast aðeins meir á leiðinni og keyptum pizzu og kók og komum með til Kötu og borðuðum saman. Það var alveg æði. Svo drösluðum við okkur heim, búnar á því eftir daginn. Þetta var aldeilis afrek hjá okkur því nú er bara eftir að koma rúminu, skrifborðsstólnum og nokkrum kössum uppeftir og svo er ég bara flutt. Elsa sagði ég mætti flytja hvenær sem er og þyrfti ekki að borga leigu fyrr en í apríl, semsagt ég má búa þarna ókeypis allan mars. Ég bara á ekki orð yfir hvað Elsa er yndæl og frábær kona.
Svoleiðis að lokaátakið verður væntanlega í þessari viku og þá verðun stærsta þrautin að koma dýnunni fyrir í bílnum, en við erum þó nokkuð öruggar um að takast það.
En nóg af kjaftæði, hér koma myndirnar:

Eldhúsið og eldhúsborðið fyrir framan, sést aðeins í útidyrahurðina

Tjaldið sem skilur að baðherbergið og geymsluna

Hluti af baðherberginu

Minn hluti af geymslunni ;D

Sturtan, rúmgóð og fín

Klósettið og þvottavélin

Baðherbergið bláa

Gangurinn minn

Haha, hver er í speglinum :þ

Vúhú

Þessi dúlluskápur geymir alla sætu bollana og diskana sem ég hef

Fróði vildi ekki fara úr kósí bláa sófanum

Ég og Halla sæta

Hér sést sófinn betur, hann er HJÚTS!!!

Stofan

Litla sæta náttborðið mitt

Kata og Halla komu með brilliant hugmynd um hvar ætti að setja prentarann

Kata sýnir hér flotta risgluggann minn, hún er samt eiginlega soldið fyrir honum sko

Halla hugsi

Ég sagði Höllu að gera eitthvað gáfulegt og þetta var afraksturinn:

Bangsímon auðvitað strax búínn að setja svip sinn á íbúðina

Kata í fílíng í svefnherberginu mínu, fataskápurinn er hægra megin við hana

Þetta verður að duga í bili.
Leyfi ykkur svo auðvitað að fylgjast með hvenær ég flyt inn og svona :D

Wednesday, March 04, 2009

Búin að skila verkefninu!

Ég sendi frá mér verkefnið í dag og er svo fegin að vera búin með það!!! Það gekk bara ágætlega og ég náði ekki að skrifa allt sem ég ætlaði mér áður en ég sendi það en það náði lágmarks orðafjölda sem var 2000 orð. Ég skrifaði á norsku svo það verður stuð hjá kennaranum að fara yfir allar málfræði villurnar! Ég heyrði aðeins í múttu í dag en hún er núna farin á systradaga í Skálholti. Hún sagði mér að Hjalti hefði verið í öðrusæti í einhverri gervigreindarkeppni sem er bara frábært og ég er stolt af honum fyrir það.
Ég þvoði alveg heilan helling af þvotti í dag sem ég þurfti að burðast með á milli húsa, en snjórinn er farinn að bráðna svo það eru stórir pollar allstaðar. Fróði er nú ekki beint hrifinn af vatni svoleiðis að stundum stoppaði hann bara og neitaði að fara lengra og þá var ekkert annað en að bera prinsinn yfir stærstu pollana ef maður vildi komast leiðar sinnar.
Kappinn er svo búinn að fá nýja ól sem var á afslætti í Din Beste Venn, sem er dýrabúð hér rétt hjá okkur. Hún er rosa flott, vatnsheld með endurskini og rosa þægilegt að taka af honum og setja á hann, sem er mjög gott fyrir hundafimina.

Litla músin, þornaður eftir vatnsgönguna
Oh, þarf ég að vera með þetta asnalega nammi á hausnum!!!

Hér sést ólin fína (frá Hurtta)

Sætilíus, svona bregst hann við þegar ég segi BANG og hann á að leggjast á hliðina og vera dauður. Við erum aðeins að vinna í svipbrigðunum hjá honum, ekki alveg nógu sannfærandi dauði.

Oh, geturðu ekki bara gefið mér nammið núna!

Fróði að lesa um Augustin fyrir verkefnið (sviðsett mynd)

Hún var alveg svona líka skemmtileg (ekki sviðsett mynd)

Jæja, nóg komið af þessu myndaflippi.
Hafið það sem allra best.

Tuesday, March 03, 2009

Hundafimi, verkefni og ljóð um Trítlu

Jæja, nú ætla ég að vera ofurbloggari og henda inn færslu aðeins rúmum sólarhringi eftir þá síðustu! Ég og Fróði fórum í fimina í gær og það var æði. Danska konan með schnauzerinn náði í mig og við fórum fyrst og létum hundana hlaupa. Fróði var í essinu sínu og þeyttist um allt með Schnauzer, púðlu og Border Terrier á hælunum. Fróði var svo glaður þegar við komum svo inn í æfingarbraggann að ég hef sjaldan séð annað eins. Skottið var á hreyfingu nær alla tvo tímana sem æfingin varði. Framfarirnar eru svo hraðar hjá honum að ég hefði aldrei trúað þessu. Hann hefur hingað til ekki þorað inní göngin ef hann sér ekki fyrir endann á þeim en nú þeyttist hann í gegnum löngu og bognu gönginn eins og ekkert væri. Hann þurfti reyndar smá hjálp við að hoppa í gegnum björgunarhringinn, en ekki mikla. Hann stakk að sjálfsögðu reglulega af úr brautinni til að heilsa uppá allar tíkurnar sem voru í hópnum okkar, alls sex. Hann var svo hrifinn af þeim öllum en þó sérstaklega Sheltie tík og það var svo sætt að sjá þau leika sér. Mér fannst það reyndar ekki sætt þegar hann var að stinga mig af og varð alveg eldrauð og skammaðist mín. Mér tókst þó alltaf að fá hann til mín aftur. Þjálfarinn útskýrði fyrir mér eftirá að ég þyrfti að vera skýrari þegar ég sýndi Fróða hvað hann átti að gera. Um leið og hann skyldi ekki hvers ætlast væri til af sér stakk hann af og fór að gera eitthvað skemmtilegra! Ég tók þessum ráðleggingum og æfði mig að vera eins skýr í líkamstjáningu og ég gat. Þetta var soldið flókið þar sem ég þurfti að hugsa hvert ég ætti að fara og sýna Fróða það á sama tíma, soldið einsog dans, nema ég hef aldrei verið góð í dansi. Jafnvel þjálfarinn skellti uppúr þegar við vorum í brautinni og ég átti að láta Fróða beygja til hægri en það vildi ekki betur til en svo að Fróði flæktist svo svakalega fyrir fótunum á mér að ég flaug á hausinn. Því miður hvarf ég ekki ofaní jörðina og þurfti að standa skömmustulega á fætur og byrja á brautinni uppá nýtt.
Þetta endaði þó allt saman vel og ég var rosa ánægð með Fróða minn. Hann var líka í svo góðu skapi og vildi bara leika við alla hundana sem hann hitti.

Ég var annars í strætó um daginn og varð svo hugsað til hennar Trítlu minnar heitinnar að ég hripaði nokkur orð niður á blað um hana.

Trítla, blítt var brosið þitt,
sem lék um varir þínar
Glöð í öllum þrengingum,
sársauka og ótta.
Svo margt þú vildir segja mér
um gleðina og lífið.
Þó í fyrstu ég væri þrjósk og þver,
þá eftirá ég skildi.
Bjarta blíða brosið þitt,
nú leikur á vörum mínum.

En nú ætla ég í háttinn, er búin að vera að bögglast í verkefninu mínu um Ágústín kirkjuföður í allan dag og er alveg andlaus. Vantar alveg heilan helling uppá þetta og þarf að skila því fyrir hádegi á morgun. Ég ætla bara eldsnemma á fætur í fyrramálið og byrja þá að vinna í því, megið endilega biðja fyrir mér að mér takist þetta.

Góða nótt og sofið rótt


Monday, March 02, 2009

Verkefna vinna og götótt budda

Jæja, þá er kominn tími á blogg. Þessi vika hefur verið annasöm, ég hef verið að vinna í verkefni og þrífa svona til skiptis. Á laugardeginum var ég bara heima að læra en í gær fór ég í sunnudagaskólann þar sem ég átti að sjá um íslensku kennsluna. Ég eyddi þvílíkum tíma í að undirbúa mig, en svo mætti bara einn lítill strákur. Eftir að ég og Sakarías höfðum haldið einn sá fámennasta sunnudagaskóla sem sögur fara af var boðið uppá kaffi og kökur í kirkjunn. Halla hafði verið í messunni og við settumst saman við borð og Kata kom svo stuttu síðar með Fróða sem hafði verið í pössun hjá henni. Ég hitti Elsu í messunni, sem ég er að fara að leigja hjá. Hún er rosalega yndæl og sagðist hlakka til að fá mig. Ég get nottla ekki beðið eftir að flytja, en ég geri ráð fyrir að það verði helgina 20 og 21 mars, eða eftir tæpar 3 vikur :D

Verkefnavinnan gengur sæmilega hjá mér og í dag mætti ég í skólann, eftir tíma fór ég á bókasafnið og fann þar bók um Augustinus, sem verkefnið er um. Ég ætla að glugga í henni í dag og vonandi get ég sett eitthvað meira niður á blað. Ég var svo að enda við að borga leiguna mína og það sem ég skuldaði MF og það er ekki mikið sem eftir stendur á bankareikningnum. Ég gat þó afhent vottorðið fyrir Fróða með norsku þýðingunni og stimplað og undirskrifað af Örnu svo það er léttir að vera buin að því. Ég fékk svo leiðinlegt sms frá þeirri sem er yfir skúringunum í forlaginu. Einhver á 3 hæð sagðist vera með ofnæmi svo nú verður Fróði að vera lokaður inni á skrifstofu eða á ganginum meðan ég skúra. Ég veit ekki alveg hvernig ég fer að því, en þetta er vægast sagt frekar fúlt. Ég fer væntanlega að skúra á morgun en þá ekki fyrr en allir eru farnir svo ég og Fróði getum verið í friði (svona ef við skyldum ekki fylgja reglunum alveg 100%).
Annars er hundafimin í kvöld og danska konan og Schnauzer vinkona Fróða sækja okkur hjá SPAR í kvöld og ég hlakka til.