Thursday, November 20, 2008

Prófið nálgast.....ATSJÚ

Prófið nálgast óðfluga og ég er á haus að lesa (ekki bókstaflega samt). Ekki bætir það úr skák að ég hef verið með leiðindaflensu þessa viku og þess vegna misst soldið úr skólanum. Ég er þó öll að koma til og vona mér slái nú ekki niður aftur. Ég verð nú bara að segja hér frá því að ég og Camilla fórum í Bok og Media um daginn, sem er kristileg bókabúð og þar sá ég Kanga Kvartetinn á 10 krónur norskar! Ég keypti auðvitað síðasta eintakið! Ég og Camilla og Marte borðuðum svo íslenskan Draum saman á meðan við biðum eftir lestinni, en Draumur er eitt uppáhalds nammið hennar Camillu. Það er bara hægt að kaupa íslenska Drauminn í einni búð hér úti sem heitir Deli De Luca og þar kostar lítill Draumur heilar 25 krónur norskar!!! Verðbólgan heima virðist allavega ekki hafa haft áhrif á verðlagningu íslenska Draumsins, eins kaldhæðnislegt og það hljómar!
Á morgun tek ég strætó til Klöru og Sævars þar sem ég ætla að þrífa hjá þeim á meðan þau eru í vinnunni. Ég verð þó ekki alveg ein í húsinu þar sem Tinna er heima með ælupest. Hér kólnar smátt og smátt en þó hefur enn ekkert snjóað af viti. Ég er samt virkilega að fíla veðrið hér í Osló. Það er næstum aldrei vindur, alltaf heiðskýrt og fallegt veður. Það dimmir þó heldur snemma eða um fjögur eða fimmleytið en það er þó skárra en myrkrið heima.
Ég er virkilega farin að hlakka til að komast með Fróða kallinn í hundafimi eftir áramót og vona að það verði byrjendanámskeið í janúar. Fróði hefur það annars bara fínt, nema mamma hans er ekki alveg nógu dugleg að fara út að labba með hann í myrkrinu. Hann vekur alltaf jafn mikla lukku og aðdáun meðal nemenda jafnt sem kennara í skólanum sem eiga bara ekki orð yfir hvað hann er sætur og góður. Ég get líka svo svarið það, hann verður sætari með hverjum deginum.
Jæja, ég þarf að fara að sökkva mér aftur ofan í Hindúismann og Gamla Testamentis fræðina.
Hafið það gott heima á klakanum.
Söknuðar og ástarkveðjur frá mér og Fróða

1 comment:

Anonymous said...

Láttu þér batna :D

Kristín og voffarnir