Monday, August 31, 2009

Fróði er ekki með PRA! :)

Ég fór til dýralæknis í dag og eftir rúmlega þriggja tíma bið á biðstofunni komumst við Fróði að hjá augnlælkninum. Ég lýsti því hvernig Fróði hefur verið undanfarið, tregur að labba niður stiga, setjast í göngutúrum og hoppar ekki uppí rúm sjálfur. Hún skoðaði hann alveg rosalega vel, bæði augun og þreifaði allan kroppinn, lét hann labba upp og niður stiga og teygði á honum í allar áttir. Niðurstaðan úr augnskoðuninni sjálfri var afar góð! Fróði er ekki með PRA! Allt leit rosalega vel út, og ekkert virðist ama að augunum hans :) Það var samt önnur saga þegur hún athugaði fram og afturfæturna. Fróði kenndi greinilega til þegar hún teygði á þeim og þá sérstaklega í framfótunum. Hnéskeljarnar sátu fastar á sínum stað, en eitthvað gæti verið að liðamótunum. Dýri vill að ég komi aftur með hann og láti mynda mjaðmir og axlir til að komast til botns í þessu. Hún vildi þó ekki meina að þetta þyrfti að vera eitthvað alvarlegt, þar sem viðbrögðin hjá Fróða voru ekki ýkt. En hann hefði ekki átt að finna neitt til svo greinilega er eitthvað ekki einsog það á að vera. Ég þarf því að panta tíma aftur hjá dýra í mjaðma og axla myndun, en fyrst ætla ég að athuga hvort ég geti fengið hann tryggðan, þetta er ekki svo aðkallandi að hann þurfi að fara í myndatöku strax á morgun þannig að það ætti að vera í lagi að bíða í nokkrar vikur og fylgjast með honum. Dýri kom nú ekki með neinar uppástungur hvað þetta gæti verið en manni grunar helst gigt eða eitthvað í þá áttina, en ég bara veit það ekki???
Það er allavega á hreinu að Fróði fer ekki aftur í hundafimina í bráð og óvíst að hann geti stundað hana aftur :( En við finnum okkur bara eitthvað annað í staðinn, hundadans eða eitthvað þar sem ég er með svo góða samhæfingu :þ


Friday, August 28, 2009

Ég kem heim í október!!!

Það er nottla bara alltof langt síðan ég bloggaði síðast! Ég biðst afsökunar, en ég hef haft í nógu að snúast með skóla og vinnu síðustu daga. Sem betur fer hef ég nú fengið námslánið mitt og hef verið ansi dugleg að strauja kortið síðustu daga. Borga reikninga, leigu, tösku fyrir Fróða og ýmislegt annað. Það síðasta var hins vegar flugmiði til Íslands 21-28 október! Arna benti mér á að það væru nokkrir miðar í boði í október á 1000 krónur norskar báðar leiðir og ég bara stóðst ekki mátið! Ég missi reyndar af nokkrum fyrirlestrum, en bækurnar verða í farangrinum svo ég verð að glugga soldið í þær heima. Ég er rosalega spennt og hlakka svo til að hitta ykkur öll heima á klakanum, knúsa mömmu og pabba og fara í göngutúr með Kristínu minni og
ég veit ekki hvað!!!
Tíminn verður eflaust fljótur að líða þangað til enda aldeilis nóg að gera í skólanum, töskubúðinni og íslenska söfnuðinum. Mér líst bara vel á þessa önn, hún er þyngri og meira krefjandi en síðasta ár, en þannig á það líka að vera og ég er staðráðin í því að standa mig vel. Ég mun hinsvegar nota restina af deginum í dag í þrif hér heima sem er vægast sagt þörf á! Ég fer svo að vinna á morgun og sunnudagurinn verður vonandi notaður í lestur, ég er pínu eftirá enda fékk ég ekki bækurnar fyrr en í gær og vantar enn nokkrar.
Á mánudaginn fer Fróði í augnskoðun þar sem ég vil athuga hvort hann sé nokkuð með PRA. Eins og sum ykkar vita hefur hegðun hans inni og úti breyst síðustu vikur og mánuði og ástæða til að gruna það orsakist af sjóndepru. Ég veit að þið biðjið fyrir þessu, ég er nokkuð kvíðin en reyni að undirbúa mig að takast á við niðurstöðurnar.
Ég er svo að vinna í þessu með að setja myndir hér á bloggið, þær koma von bráðar :þ

Tuesday, August 18, 2009

Skólinn byrjaður

Skólinn byrjaði í dag og það var pínu stress en gekk bara vel. Ég kannaðist við sum andlitin en það voru líka nokkur ný. Á morgun verður skrautlegur dagur því ég þarf að mæta á kynningar dag frá 9 til 4 í Holmenkollen kapellu. Fróði verður með í töskunni þar sem ég hef ekki fengið pössun fyrir hann og vonandi gengur það upp. Ég fer svo beina leið í töskubúðina að vinna kvöldvakt. Yfirmaðurinn minn vildi líka að ég kæmi að vinna á fimmtudagsmorgun sem ég sagðist ekki vita hvort ég gæti það því ég veit ekki ennþá hvenær ég eigi að mæta í skólann á fimmtudag. Það orsakast af því að ég hef ekki getað skráð mig í skólann ennþá því ég bíð enn eftir að námslánin komi inn á reikninginn mín. Þess vegna er ég núna alveg staurblönk og á ekki fyrir nokkrum sköpuðum hlut fyrr en millifærslan kemur í gegn. Það verður hins vegar líklegast ekki fyrr en eftir helgi. Ég er bara uppgefin og þoli ekki þessar fjárhagsáhyggjur og óöryggi. En þetta tekur vonandi enda fljótlega, á von á bæði láninu og launum í þessum mánuði sem betur fer.

Wednesday, August 12, 2009

Ég kem heim um jólin :)

Ég ætlaði nú bara að láta vita af því að mamma og pabbi eru búin að kaupa fyrir mig miða heim 20. des til 8.jan!!! Ég er alveg í skýjunum og get ekki beðið eftir að sjá fjölskylduna mína, vinina og landið mitt aftur :)

Tuesday, August 11, 2009

Viðburðarrík helgi

Camilla var veik á laugardaginn svo ekki varð úr Tusenfryd ferðinni, en í staðinn horfðum við á Pan's Labirynth í nýja flatskjánum í nýju íbúðinni þeirra Camillu og Torje. Eftir myndina, sem var fremur dimm og óhugguleg tók ég síðasta banann heim. Ekki vildi betur til en svo að hann keyrði bara til Stortinget og allir aðrir banar, lestir og strætóar hættir að ganga. Ég var því strönduð niður í bæ um eittleytið á aðfaranótt sunnudags. Ég hringdi í Camillu sem fann útúr því að allra síðasta lest kvöldsins stoppaði ekki langt frá henni svo ég rétt náði henni tíu mínútur yfir eitt. Camilla og Torje náðu svo í mig á lestarstöðina eftir þessa mislukkuðu heimferð og ég gisti því á sófanum þeirra. Á sunnudeginum fórum við á Ísöld 3 í þrívídd, eftir að hafa komið Fróða fyrir í pössun hjá mömmu Camillu. Myndin var mjög skemmtilegt og svaka flott að sjá fígúrurnar hoppa út úr skjánum. Á mánudeginum var svo allsherjar tiltekt hér í kotinu og ég var hreinlega uppgefin þegar öllu var loks lokið. Í dag tók heldur engin afslöppun við þar sem ég fór til hennar Klöru að þrífa og beint þaðan niðrí bæ þar sem ég hafði mælt mér mót við Camillu. Ég fór með henni að versla skólabækur, þetta var heill hellingur og ég kvíði fyrir að sjá hversu mikið ég þarf að kaupa. En ég fæ það vonandi notað. Ég dreif mig svo heim til að taka á móti Elínu sem kíkti í heimsókn. Hún er komin aftur í bæinn eftir sumar hjá fjölskyldunni í Stavanger og er flutt í göngufjarlægð frá mér. Það var frábært að hitta hana aftur og ég bakaði svaka góða pizzu handa okkur. Á morgun fer ég svo með litla dýrið í pössun til Camillu þar sem hann verður væntanlega til föstudags. Ég þarf að vinna svo mikið næstu daga að það tekur sig ekki fyrir mig að ferðast alla leið til hennar og ná í hann bara svo hann sé hjá mér yfir nóttina. Það verða því tvær einmannalegar nætur, en það verður fljótt að líða. Um helgina er svo hundasýning hér í Osló sem ég ætla að skella mér á, þ.e. ef ég finn bólusetningarvottorðið hans Fróða í tæka tíð, en það má gera ráð fyrir að ég þurfi að sýna það til að komast inn með hann.
Hef þetta ekki lengra í bili og bið ykkur vel að lifa.

Thursday, August 06, 2009

Tusenfryd um helgina

Ég var að vinna í íslenska söfnuðinum í dag og töskubúðinni í kvöld. Arna kom á skrifstofuna í stutta stund og ég sagði henni að ég væri að spá að fara í djáknanámið í MF, hún sagði mér nú að drífa mig í prestinn frekar uppá að hafa fleiri atvinnumöguleika og öruggari tekjur. Ég ætla að sjá til en prestsnámið er einu ári lengra en djáknanámið. Annars kom gaur í vinnuna til mín í dag sem vildi bjóða mér út og var frekar ágengur. Ég asnaðist til að láta hann hafa símanúmerið mitt en ég vona að hann láti mig vera. Væri þakklát ef þið vilduð biðja fyrir því. Annars hef ég fengið að taka með Fróða í vinnuna núna, sem er frábært. Eigandinn hefur samt enn ekki gefið leyfi, en ég á eftir að tala við hann. Í næstu viku verður svo Camilla með hann þegar ég er í vinnunni svo hann verður í rosa dekri. Á morgun er meiri vinna en á laugardaginn ætlum ég og Camilla í Tusenfryd ef það verður gott veður. Ef veðrið svíkur okkur förum við frekar á kaffihús og svo í bíó, annað hvort á Public Enemy eða Ísöld 3 í þrívídd :)

Tuesday, August 04, 2009

Kvöldfærsla

Ég er á leið í háttinn en vildi bara henda inn einni færslu fyrst. Ég er búin að vera að stússast í dag og hringja í bankann að millifæra peninga svo ég geti borgað leiguna sem ég átti að borga á mánudag. Þetta tekur heila eilífð hjá þeim og verður væntanlega ekki komið inn fyrir helgi! Þvílíkt vesen eins og vanalega og eilíft stress fyrir mig. Ég þarf svo að hringja í LÍN og bankann aftur á morgun til að ganga frá þessu með að fá fyrirframlán. Ég er að vinna næstu þrjú kvöld og því miður er Camilla að vinna á sama tíma svo ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera varðandi Fróða. Veit ekki hvort eitthvað hefur breyst í því að ég megi taka hann með eða hvort ég þurfi að skilja hann eftir einan heima. Þetta hvílir allt þungt á mér. Ég get ekki lýst því hversu erfitt það er að vera með hund sem er haldinn aðskilnaðarkvíða. Ég kvíði nær öllu núna, get ég haldið áfram að taka Fróða með í skólann, hvað með í sunnudagaskólann, íslenska söfnuðinn..... Mínar nánustu vinkonur hér úti eru nú farnar heim, sem betur fer er Camilla þó enn hér. En ég upplifi núna meira en nokkru sinni áður hversu ein ég er og það er erfitt. Mér finnst ég svo hjálparlaus og ég verð líka reið útí Guð, þó Hann hafi verið mér svo góður, vegna þess að Hann hefur ekki svarað bænum mínum að lækna Fróða af aðskilnaðarkvíðanum og ég hef misst alla von. Ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera því ég elska Fróða og get alls alls ekki hugsað mér lífið án hans, en ég höndla bara ekki þennan aðskilnaðarkvíða hjá honum mikið lengur.
Hafið okkur í bænum ykkar.

Saturday, August 01, 2009

Dagur í hundagarðinum

Jæja, ég hef ákveðið að reyna að vera duglegur bloggari þó að lítið sé um að ég fái einhverjar athugasemdir. Kristín fór heim í gærkvöldi og ég fylgdi henni útá völl. Það var leitt að þurfa að kveðja hana en alveg yndislegt að hafa hana í heimsókn. Ég er rosa þakklát fyrir að hún kom og við áttum svakalega góðan tíma saman. Við vorum duglegar að kíkja í gæludýraverslanir og fatabúðir síðustu daga og ég keypti mér meðal annars rosa fínar gallabuxur á meira en 70% afslætti í Sizzi sem er ein uppáhaldsbúðin mín hér úti. Mamma sendi mér sms á fimmtudaginn að ég væri að fá 125 þúsund endurgreiddar fá skattinum heima sem er nottla alveg frábært. Ég átti alls ekki von á að fá svona mikið, en um leið og ég er þakklát, get ég ekki annað en hryggst aðeins við það að þetta eru einungis um 6 þúsund norskar krónur einsog gengið er í dag :( Mamma og pabbi ætla samt að hjálpa mér að borga leiguna nú í ágúst og ég er þakklát fyrir það líka. Ég hafði kviðið soldið fyrir deginum í dag, því nú erum ég og Fróði svotil alein eftir. Kata er farin heim og það var sorglegt að þurfa að kveðja hana. Það er búið að vera svo yndislegt að hafa hana svona nálægt mér og við hittumst nær daglega svo það eru mikil viðbrigði að hún sé farin. Ég er ofsalega fegin þó að hafa Camillu, við ætlum að hittast á morgun, en hún er búin að vera á haus að flytja í nýju íbúðina. Í dag var rosalega gott veður og ég dreif mig með Fróða í hundagarðinn í Vigelandsparken. Það var mjög gaman og ég hef sjaldan séð Fróða skemmta sér jafn vel. Hann kynntist þarna 3 ára geldum JRT sem heitir Amigo og þeir urðu strax perluvinir. Eftir að hafa þekkst í minna en 10 mínútur kom stór svartur hundur og hljóp beint að Amigo som kveinaði hástöfum af hræðslu. Fróði var ekki lengi að koma vini sínum til bjargar og hljóp geltandi að stóra hundinum og stillti sér upp við hliðina á Amigo. Eftir það voru þeir orðnir dúó og gerðu allt saman. Ef Amigo gelti gelti Fróði og öfugt og saman fóru þeir og heilsuðu uppá alla nýju hundana í garðinum. Amigo er rosa góður, hann er svaka orkubolti en hafði áður verið ómögulegur með öðrum karlhundum. Lenti sífellt í slag og gat ekki verið laus á hundasvæði. Eftir geldinguna varð hann annar hundur og honum og Fróða samdi alveg ótrúlega vel. Ég spjallaði heillengi við eiganda hans sem er stelpa á aldur við mig. Hún sagðist oft koma í garðinn og ég vona ég hitti aftur á hana fljótlega. Ég ætla að vera duglegri að fara með Fróða í garðinn núna þar sem það lífgaði svona hressilega uppá hann. Fróði er búinn að vera óvenju þungur undanfarið og ég veit hann hefur sárlega vantað félgaskap annarra hunda svo ég er rosa fegin að hann hitti Amigo. Fróði er reyndar ótrúlega góður í garðinum og hefur hingað til ekki farið í slag eða verið með derring við neinn. Geltir bara á suma af stóru hundunum en er annars duglegur að lúffa fyrir tíkum jafnt sem rökkum.
Á morgun fer ég að þrífa forlagið og kíki svo til Camillu í nýju íbúðina. Ég fer svo að vinna eitthvað í töskubúðinni í næstu viku, en verslunarstjórinn ætlar að sjá hvort hún geti fengið verslunareigandann til að leyfa mér að hafa Fróða.