Friday, November 30, 2007

The Great Escape

Ég kíkti á bíó á þriðjudagskvöld á American Gangster með honum Hjalta brósa. Það var mjög fínt og myndin góð. Russel Crowe er í miklu uppáhaldi hjá mér, bara snilldarleikari. Annars eru gömlu hjúin farin til Danmerkur og verða þar í tæpa viku. Pabbi var búinn að útbúa ítarlega dagskrá fyrir ferðina og búinn að panta borð langt framí tímann á fínum veitingastöðum, miða á leikhús og margt fleira skemmtilegt (tek fram að pabbi vildi hafa þetta afslappað ferð, með sem minnsta prógramminu, en fyrir honum taldist þetta víst frjálsleg dagskrá!).
Hjá mér er hins vegar bara vinna og aftur vinna! Ég var að vinna frá 8-14 í dag og hafði engan kost betri en að skilja Fróða eftir einan heima í búri. Ég hafði áhyggjur hvernig honum mundi reiða af og þegar ég kom heim aftur var hann mjög stressaður og hafði greinileg nagað rimlana á búrinu því tennurnar hans eru nú silfurlitar. Hann hljóp um, vældi og gelti sem vitlaus væri þegar ég hleypti honum út, en ég hunsaði hann algerlega. Ég fór strax með bæði skrípin út í góða göngu og þegar við komum inn aftur var Fróði verulega æstur og lafhræddur um að vera skilinn eftir. Ég reyndi að fá hann til að leika, en ekkert gekk. Ég sá svo mér til skelfingar að ég hafði ekki lokað útidyrahurðinni nógu vel og það var sem Fróði læsi hugsanir mínar því hann hljóp að hurðinni, klóraði hurðina opna og þaut út. Nú voru góð ráð dýr, þar sem ég vissi hann myndi alls ekki hlýða innkalli núna, sama hvað væri í boði. Hann var lafhræddur og hljóp út í buskann eins og skrattinn væri á hælunum á honum. Ég tók á rás eftir honum, og Trítla á eftir mér. Ég var á strigaskóm á peysunni, það var skítakuldi og flughált. Ég var nærri floginn á hausinn þegar ég hljóp/rann/flaug/skautaði (í þessari röð) niður Þinghólsbrautina á eftir strokukindinni, meðan ég galaði "FRÓÐI!!!" hástöfum. Þetta hlýtur að hafa komið fremur spánskt fyrir augu viðstaddra, þar sem Fróði var hvergi sjáanlegur og eini hundurinn í augsýn var Trítla sem hljóp á eftir mér! Grár köttur þaut yfir götuna og Fróði á eftir. Svo heyrði ég mikil læti og gelt. Ég hraðaði mér þangað sem hljóðið barst og viti menn þarna var kappinn! Þá hafði hann þefað upp einhverja tík sem vildi ekkert með hann hafa! Eigandi tíkarinnar hafði náð taki á ólinni hans Fróða og ég þakkaði honum kærlega fyrir. Svo fikraði ég mig upp svellhála götuna aftur, ekki sérlega stolt af þessu uppátæki hans Fróða míns.
Um kvöldið fór ég á bænastund og það var verulega fínt. Það voru hjón í heimsókn þetta kvöld og þau sögðu okkur frá stórkostlegum kraftaverkum sem Guð er að gera á Íslandi í dag. Svo báðu þau fyrir okkur og konan kom með yndisleg spádómsorð til mín um að mikil lofgjörð og gleði myndi streyma frá mér í framtíðinni. Ég tengdi það við skrifin og ég hef lengi þráð að geta skrifað eitthvað jákvætt og uppbyggjandi, en ekki einungis útrás þegar mér líður illa. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði gleymt símanum mínum hjá Helgu og hef enn ekki náð í hann, svo ég bið þá sem reynt hafa að ná í mig afsökunar á þessu símaleysi mínu! En úr því verður bætt núna á eftir.

Á fimmtudeginum kíkti ég í heimsókn til Höllu, sem var sérlega ánægjulegt og við gæddum okkur á hollum kræsingum að vana. Um kvöldið voru svo 12 sporin, en ég var orðin efins að ég gæti farið þar sem ég hnerraði bókstaflega útí eitt allan daginn.

Í dag vaknaði ég ekkert sérlega snemma, en kíkti um hádegið með Fjólu í Guðmundarlund þar sem við leyfðum gerpunum mínum að hitta Hnetu í fyrsta sinn. Það gekk vonum framar og Hneta var afar hrifin af Fróða, sem var ekkert óánægður með hana heldur. Þetta gekk semsagt bara mjög vel og allir voru sáttir.

Ég er svo á leið í vinnuna núna á eftir og aftur á morgun, mikið stuð framundan hjá mér!



Monday, November 26, 2007

Að ganga á vatninu

Ég hef ekki afrekað mikið meira um helgina en það að vaka þegar ég vil sofa og sofa þegar ég vil vaka. Það reyndist heilanum mínum ofviða að snúa sólarhringnum svona við og hann brann yfir í nótt. Nú er ekkert á milli eyrnanna á mér, annað en höfuðverkur.
Ég talaði þó við við Siggu í kvöld, áður en bruninn átti sér stað. Við spjölluðum um framtíðaráætlanir, en hún stefnir á skóla í Osló, líkt og ég er að íhuga. Reyndar ekki fyrr en þarnæsta haust, en við gætum þá allavega leigt saman þegar hún kæmi. Ég varð að sjálfsögðu ennþá spenntari fyrir því að fara út, en Sigga er að reyna að sannfæra mig um að fara í Fjellhaug fremur en MF. Það verður bara að koma í ljós hvað verður fyrir valinu og ég bið bara Guð að leiða það. Það olli mér hins vegar töluverðu hugarangri þegar hún sagði mér hún héldi að hundar væru hvergi velkomnir í fjölbýlishús í Osló. Ég vona að þetta sé misskilningur, því það er nóg fyrirhöfn í kringum hundana nú þegar, þ.e. við að flytja með þá út, án þess að þetta bætist við í ofanálag.
Meðfylgjandi mynd lýsir þessari krísu minni snilldarvel!


Ég verð að viðurkenna að samfara spennu og tilhlökkun við að fara út kemur kvíði og óöryggi. Það eru svo margir óvissuþættir og svo ótalmargar flækjur sem þar að greiða úr áður en ég færi út. Stundum verður þetta bara alltof yfirþyrmandi og ég ýti þessum plönum tímabundið úr huga mér. Læt sem ekkert sé á meðan ég ýti þessu þunga hlassi á undan mér. Ég hef ekki verið nógu dugleg að leita til Guðs með þetta allt saman því um leið og ég vil vera í vilja Hans óttast ég hver sá vilji gæti verið. Óttast að hann samræmist ekki mínum vilja og að ég þurfi að sleppa taki á einhverju sem ég vil ekki sleppa. Óttast að ég þurfi að treysta Guði þegar ég vil fremur treysta á eigið hyggjuvit. Svo er það óttinn við að vera ein. Ég veit að Guð er að kalla á mig að ganga á vatninu, og ég vil gera það, nema bara án þess að þurfa að stíga útúr bátnum.
Jæja, ekki löguðu þessar pælingar höfuðverkinn, en ég hvet ykkur endilega til að biðja fyrir þessu, ég vær mjög þakklát fyrir það.
En þar sem þetta var svolítið þungt hjá mér í þetta skiptið ætla ég að enda á einhverju léttu, eða skopmyndinni hér að neðan sem lýsir svo vel hvernig mér líður núna!



Saturday, November 24, 2007

Afreksdagur!

Fjóla er nú komin með hana Hnetu sína í hendurnar! Mikið rosalega samgleðst ég henni! Hneta er algjör feitabolla og ofsa leikglöð, kelin og skemmtileg. Hér fyrir neðan er mynd af litlu prinsessunni (sem ég stal af blogginu hennar Fjólu án leyfis):
Hún er algert æði og ég hlakka til að kynnast henni betur.
Annars hef ég verið á kafi í vinnu, meira og minna fyrir utan fimmtudaginn, sem átti að heita frídagur. Ég hef verið að vinna í jólahreingerningu heima hjá mér og það hefur kostað svita og tár, skal ég segja ykkur. En loks í kvöld sá ég afrakstur erfiðisins. Allt er orðið tandurhreint og fínt (eða svona hérumbil allt) og ég er búin að planta smá jólaskrauti í hillurnar og gera voða kósí. Ég kveikti svo á milljón og einu kerti og ákvað að nú gæti ég boðið fólki að koma í heimsókn. Fjóla kíkti til mín um áttaleytið og við röbbuðum smá. Moli var með, Fróða til ómældrar gleði. Svo kom Kristín með voffana sína og vakti mikla lukku hjá Trítlu og Fróða og mér að sjálfsögðu. Við fórum í smá göngutúr áður en ég dró þreyttar lappir hingað í vinnuna um ellefuleytið.
Ég ætla taka fram að ég er búin að breyta stillingunni sem var óvart á gestabókinni minni þannig að nú geta allir skrifað comment og ekki bara fáir útvaldir!
Svo, kæru vinir, endilega nýtið ykkur það!
Góða nótt, þið sem eruð svo heppin að vera á leiðinni í háttinn.
Ég ætla að reyna að koma mér fyrir í dúkkusófanum hérna frammi og gera heiðarlega tilraun til að láta fara vel um mig....


Tuesday, November 20, 2007

Guð er góður!

Jæja, gærdagurinn fór í að skipta um dekk og telja dósir. Svo að sjálfsögðu YD KFUK fundurinn, en þar fórum við í leiki og mætingin var góð. Í dag var ég í vinnunni til 3, en því miður þurfti hann Fróði minn að dúsa útí bíl mestallan daginn þar sem pössunin fyrir hann klikkaði og enginn komst að ná í hann. Ég reyndi þó að bæta honum þetta upp með því að lofa honum að hitta Nölu sína og þau fengu að hlaupa og leika sér í góða stund. Já, og ekki má gleyma að hann fékk að sitja inni hjá sála, á leðurbekknum, hvorki meira né minna! Minn var einsog höfðingi allan tíman og hallaði gáfulega undir flatt meðan við sáli röbbuðum saman.
Ég fékk verulega ánægjulegar fréttir í gær. Hún Fjóla mín fær hvolpinn sem hana langar svo í! Ég samgleðst henni innilega. Guð er svo sannarlega góður og Hann hefur bænheyrt hana í þessu einsog öðru. Vona bara og bið að allt gangi vel þegar hún fer og nær í litlu dúlluna á morgun. Er sjálf að deyja úr spenningi yfir þessu. Í kvöld var ég með vitnisburð á AD fundi KFUK. Mamma var fundarstjóri og bað mig um þetta á síðustu stundu, svo ég var algerlega óundirbúin, en þetta gekk ágætlega þrátt fyrir það. Heiðrún blessaði okkur svo með yndislegu frumsömdu lagi og texta sem hún flutti svo fallega fyrir okkur.

Ég ætla að enda í dag á smá skopmynd (sem er sérstaklega ætluð Fjólu):



Monday, November 19, 2007

Stórinnkaup

Dagurinn byrjaði með bænastund hjá Fjólu (bara við tvær), sem var virkilega notaleg og Guð blessaði okkur ríkulega með nærveru sinni. Þvínæst versluðum við helling af PetEdge
handa ofdekruðu ferfætlingunum okkar. Meðal annars splæsti ég heilum 5,99 dollurum í jólapeysu handa Trítlu:Þess má geta að jólatréið blikkar!

Þá tók við ganga að Rauðavatni með Kristínu og hundunum hennar. Fróði var ekki sérlega friðsamur í þeirri göngu og taldi nauðsynlegt að rífa kjaft við alla hunda á svæðinu. Afmælisveisla nr. 2 tók svo við hjá múttu og þar var mikið um kræsingar eins og hennar er von og vísa.

Sunday, November 18, 2007

Langur vinnudagur

Ég fór í ansi hressandi göngu í frostinu með Fjólu og Mola í morgun. Hún endaði svo í bakaríinu og að lokum heima hjá Fjólu. Vinnan tók svo við um 13:30 og er ég nýkomin úr henni. Það var mikið að gera, en í lok dags fórum við með heimilisfólkinu í partý á öðru sambýli. Það var mjög gaman og sérstök upplifun að ófatlaðir voru þar í minnihlutahóp og í raun bara soldið útúr. Nú er ég dauðþreitt og ætla í háttinn, en snemma í fyrramálið kíki ég til Fjólu til að biðja með henni fyrir að hún fái Papillon hvolpinn sem hana langar í, en margt hefur gengið á sem virðist mæla gegn því.
Jæja, ég ætla að enda með bæn sem ég samdi fyrir um 13 árum síðan:

Guð gefi ykkur góða nótt
og góða drauma að dreyma,
svo megi þið nú sofa rótt
og öllu illu gleyma.




Friday, November 16, 2007

Age is mind over matter!

Afmælisdagurinn hennar mömmu var bara mjög vel heppnaður. Ég gaf henni snilldarlegt kort sem ég fann í Garðheimum sem á stendur: "Age is mind over matter. If you don't mind it doesn't matter" Hérna er mynd af kortinu:

Þetta fannst mér nottla bara tær snilld og mömmu líka. Svo gaf ég henni fallega skál með mynd af hana. Svo sátum við öll familían (fyrir utan Maríu auðvitað) og tróðum okkur út af Pizzu og franskri súkkulaðitertu með rjómaís.
Ég var á næturvakt síðustu nótt og voffarnir hjá mömmu og pabba að vana. Mér til mikillar mæðu hafði Fróði haldið vöku fyrir foreldrum mínum í nótt með endalausu gelti og rápi. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessu og ætla að hafa samband við atferlisfræðing eftir helgi.
Annars er nú annar skóli kominn inn í myndina. Það er Menighets Fakultet í Osló. Mér líst vel á þennan skóla, því hann bíður uppá ansi fjölbreyttar námsleiðir í Guðfræðinni auk þess sem nám í honum er örugglega metið hérna heima. Svo spillir ekki að hann er sá ódýrasti hingað til .
Ég er núna að reyna að afla mér upplýsinga um alla skóla á Norðurlöndunum sem hafa góða Guðfræðikennslu og ætla svo út að skoða þá sem koma helst til greina uppúr áramótum.
Fjóla og Marisa eru að kom í heimsókn núna á eftir svo ég læt þetta gott heita í bili.

Thursday, November 15, 2007

Afmæli!

Hún á afmæli í dag!
Hún á afmæli í dag!
Hún á afmæli, hún mamma!
Hún á afmæli í dag!

Til hamingju með afmælið, elsku besta mamma í heimi!


Wednesday, November 14, 2007

Nýtt blogg og nokkrar staðreyndir um mig

Jæja, þetta er nú búið að vera meira vesenið! Ég var með 2 blogg og gat skráð mig inná hvorugt, svo ég gafst bara upp og bjó til nýtt! Ég ætla að reyna að vera dugleg að skrifa núna, hvort sem einhver les þetta eða ekki!
Gríðarlega margt hefur á daga mína drifið frá síðustu bloggfærslu (sem ég skammast mín of mikið til að opinbera hvenær var skráð).
Hér eru nokkrir punktar:
Ég er hætt hjá Dýralandi og vinn núna á Sambýli fyrir fatlaða í Kópavoginum.
Ég á 2 hunda: Fróði, 2ja ára Tíbet Spaniel hundur

Trítla, 1 árs Chihuahua tík án ættbókar

Framtíðarplön mín eins og er:
Fara til Noregs í kristilegan háskóla, nánar tiltekið Fjellhaug, næsta haust.

Jæja, það sem er að gerast núna í dag:
Fjóla, vinkona mín er að fá sér Papillon hvolp um helgina og á morgun kíkjum ég og Kristín með henni í dýrabúðir að versla eitthvað þarft fyrir litlu tíkina.


Þetta er litla sponsið sem ég fór með Fjólu að skoða á mánudaginn. Hún er alveg himnesk og yndislega falleg. Það verður því stuð næstu vikur í hundagöngum þar sem Kristín er líka nýbúin að fá sér rosa fallega Papillon tík sem heitir Aris.
Annars hef ég í nógu að snúast þessa dagana! Ég er núna á næturvakt og fann mér ekkert betra að gera en ákkúrat þetta! Ég talaði við Maríu systir í klukkutíma í dag og það var virkilega gaman að heyra frá henni. Hún gerði mig enn spenntari fyrir framtíðarplönum mínum um nám í Noregi. Ég er að vonast til að geta farið og heimsótt skólann fljótlega eftir áramót, en ætla að senda umsókn sem fyrst. Svo er bara að bíða, biðja og sjá.
Út í allt aðra sálma þá eru nú 2 tíbbagot í gangi og ég er alveg veik. Annarsvegar er það hálfsystir Fróða og hins vegar frænka hans. En ég held ég sé nú ekki að fara að bæta við mig öðrum þverhaus! Allavega ekki í bráð.
Jæja, nóg skrifað!
Góða nótt.