Friday, November 30, 2007

The Great Escape

Ég kíkti á bíó á þriðjudagskvöld á American Gangster með honum Hjalta brósa. Það var mjög fínt og myndin góð. Russel Crowe er í miklu uppáhaldi hjá mér, bara snilldarleikari. Annars eru gömlu hjúin farin til Danmerkur og verða þar í tæpa viku. Pabbi var búinn að útbúa ítarlega dagskrá fyrir ferðina og búinn að panta borð langt framí tímann á fínum veitingastöðum, miða á leikhús og margt fleira skemmtilegt (tek fram að pabbi vildi hafa þetta afslappað ferð, með sem minnsta prógramminu, en fyrir honum taldist þetta víst frjálsleg dagskrá!).
Hjá mér er hins vegar bara vinna og aftur vinna! Ég var að vinna frá 8-14 í dag og hafði engan kost betri en að skilja Fróða eftir einan heima í búri. Ég hafði áhyggjur hvernig honum mundi reiða af og þegar ég kom heim aftur var hann mjög stressaður og hafði greinileg nagað rimlana á búrinu því tennurnar hans eru nú silfurlitar. Hann hljóp um, vældi og gelti sem vitlaus væri þegar ég hleypti honum út, en ég hunsaði hann algerlega. Ég fór strax með bæði skrípin út í góða göngu og þegar við komum inn aftur var Fróði verulega æstur og lafhræddur um að vera skilinn eftir. Ég reyndi að fá hann til að leika, en ekkert gekk. Ég sá svo mér til skelfingar að ég hafði ekki lokað útidyrahurðinni nógu vel og það var sem Fróði læsi hugsanir mínar því hann hljóp að hurðinni, klóraði hurðina opna og þaut út. Nú voru góð ráð dýr, þar sem ég vissi hann myndi alls ekki hlýða innkalli núna, sama hvað væri í boði. Hann var lafhræddur og hljóp út í buskann eins og skrattinn væri á hælunum á honum. Ég tók á rás eftir honum, og Trítla á eftir mér. Ég var á strigaskóm á peysunni, það var skítakuldi og flughált. Ég var nærri floginn á hausinn þegar ég hljóp/rann/flaug/skautaði (í þessari röð) niður Þinghólsbrautina á eftir strokukindinni, meðan ég galaði "FRÓÐI!!!" hástöfum. Þetta hlýtur að hafa komið fremur spánskt fyrir augu viðstaddra, þar sem Fróði var hvergi sjáanlegur og eini hundurinn í augsýn var Trítla sem hljóp á eftir mér! Grár köttur þaut yfir götuna og Fróði á eftir. Svo heyrði ég mikil læti og gelt. Ég hraðaði mér þangað sem hljóðið barst og viti menn þarna var kappinn! Þá hafði hann þefað upp einhverja tík sem vildi ekkert með hann hafa! Eigandi tíkarinnar hafði náð taki á ólinni hans Fróða og ég þakkaði honum kærlega fyrir. Svo fikraði ég mig upp svellhála götuna aftur, ekki sérlega stolt af þessu uppátæki hans Fróða míns.
Um kvöldið fór ég á bænastund og það var verulega fínt. Það voru hjón í heimsókn þetta kvöld og þau sögðu okkur frá stórkostlegum kraftaverkum sem Guð er að gera á Íslandi í dag. Svo báðu þau fyrir okkur og konan kom með yndisleg spádómsorð til mín um að mikil lofgjörð og gleði myndi streyma frá mér í framtíðinni. Ég tengdi það við skrifin og ég hef lengi þráð að geta skrifað eitthvað jákvætt og uppbyggjandi, en ekki einungis útrás þegar mér líður illa. Þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði gleymt símanum mínum hjá Helgu og hef enn ekki náð í hann, svo ég bið þá sem reynt hafa að ná í mig afsökunar á þessu símaleysi mínu! En úr því verður bætt núna á eftir.

Á fimmtudeginum kíkti ég í heimsókn til Höllu, sem var sérlega ánægjulegt og við gæddum okkur á hollum kræsingum að vana. Um kvöldið voru svo 12 sporin, en ég var orðin efins að ég gæti farið þar sem ég hnerraði bókstaflega útí eitt allan daginn.

Í dag vaknaði ég ekkert sérlega snemma, en kíkti um hádegið með Fjólu í Guðmundarlund þar sem við leyfðum gerpunum mínum að hitta Hnetu í fyrsta sinn. Það gekk vonum framar og Hneta var afar hrifin af Fróða, sem var ekkert óánægður með hana heldur. Þetta gekk semsagt bara mjög vel og allir voru sáttir.

Ég er svo á leið í vinnuna núna á eftir og aftur á morgun, mikið stuð framundan hjá mér!



1 comment:

Anonymous said...

Nóg að gera greinilega...
Frábært að hittingurinn gekk svona vel. Aumingja Fróði kallinn að þurfa að vera einn heima alveg típíst að hann hafi endilega þurft að sleppa þegar hann var svona hræddur heppilegt að maðurinn náði í ólina á honum frábært að þetta endaði svona vel :)
Hafðu það gott

Kveðja Kristín, Sóldís og Aris