Thursday, September 25, 2008

Guð er góður

Ég átti fínan skóladag í dag. Ég þurfti reyndar að vakna klukkan 6 svo ég gæti labbað aðeins með Fróða áður en ég skildi hann eftir heima. Fróði er farinn að verða miklu rólegri, þó hann eigi enn mjög erfitt með að vera einn er hann hættur að fá svona "kvíðaköst" í tíma og ótíma. Ég er að vinna í sálmaverkefninu þessa dagana, en í dag fór ég og hitti Liv Sissel til að skrifa undir leigusamninginn. Hún sagði mér þá frá því að hún hefði líka verið á jentefesten og talað þar við konu sem stýrir fyrirbænaþjónustunni í MF. Hún og fleiri taka sem sagt að sér að biðja fyrir nemendum og starfsfólki skólans. Henni fannst endilega eins og það væri einhver tenging milli Liv og skólans. Liv var mjög hissa og sagði henni auðvitað frá mér. Þannig að þessi kona mun væntanlega heilsa uppá mig í skólanum einhvern næstu daga, en hún biður fyrir mér. Það er svakalega gott að vitaaf því og það er alveg ótrúlegt hvernig Guð vinnur.
En eftir skólann í dag var ég samferða Camillu sem er í seminargruppe með mér, við spjölluðum helling og hún beið eftir strætó með mér. Hún sagði mér frá Hundakaffihúsi hér í Osló sem ég ætla að fara á með Fróða á laugardaginn. Þar er hægt að fá ýmislegt gott bæði fyrir mig og Fróða og svo eru þeir með helling af flottum hundavörum í búðinni líka.
Eitt þeirra er hundataska á hjólum með hólf fyrir fartölvu og bækur. Þetta er bara mesta snilld fyrir mig því það þýðir að ég geti tekið Fróða með mér hvert sem ég fer.



Þetta er taskan (klikkið á myndina svo þið sjáið hana stærri), hún er bara til í svörtu, semsagt hinn liturinn er uppseldur hjá þeim, en ef þið stækkið myndina hér að ofan sést hvað hægt er að nota hana á marga vegu. Það er semsagt hægt að taka hjólin af henni og smella haldföngum á hana svo hún verði bakpoki. Svo eru bönd framan á henni til að smeygja bílbelti undir svo þetta er fínasta bílabúr líka. Svo er hægt að leggja hana á hliðina og þá er hún orðin bæli fyrir Fróða, en hún er fóðruð að innan.

Þetta er hinn liturinn á töskunni, sá sem er uppseldur



Hér er mynd af hólfinu framan á sem er fyrir tölvu og bækur.



Ég held að Fróði verði þó einna sáttastur með þessa fúnksjón, sérstaklega í vetur þegar það er orðið kalt að liggja á gólfinu í skólanum.

Guð blessi ykkur!


Tuesday, September 23, 2008

Viðburðarríkir dagar

Jæja, það er víst tími kominn til að setja inn bloggfærslu hérna. Helgin hjá mér var bara ágæt og nokkuð viðburðarrík. Á laugardeginum fór ég í Ekebergsletta hundagarðinn með Fróða. Það er ofsalega fallegt þarna og túnið fyrir hundana er risastórt. Það voru því miður bara stórir hundar þarna svo að Fróði hélt sig bara við lappirnar á mér og þorði ekki að leika við hina hundana. Ég hitti svo Höllu og við fórum sama í Ekeberghallen, þar sem jentefest var á vegum Jesú kvenna. Rebecca St. James var með tónleika og Fróði fékk að koma með. Það var rosalega gaman að vera þarna ásamt ca 400 öðrum stúlkum og konum og hlusta á Rebeccu og fleiri frábæra tónlistarmenn syngja og lofa Guð.
Á sunnudeginum var ég með höfuðverk og magaverki, svo ég gerði ekki það sem ég ætlaði mér í sálmaverkefninu. Í gær fór ég til Höllu eftir 6 klukkustundir af fyrirlestrum. Við kjöftuðum og máluðum með vatnslitum á meðan við horfðum á Dr. House.
Fróði er orðinn svaka númer í skólanum og bæði kennarar og nemendur flykkjast að okkur í hrönnum til að fá að heilsa uppá hann. Fróði er bara sáttur með athyglina og rúllar sér á bakið á meðan einhver klórar á honum mallann og bak við eyrun. Hann stendur sig einsog hetja og það heyrist aldrei neitt í honum. Ég er byrjuð að ná betri tökum á norskunni og fólk er rosalega hissa hvað ég hef tekið miklum framförum á stuttum tíma.
Eftir Kristendoms historie tímann í dag fór ég í Háskóla Oslóar til að fá svona Studie Bevis svo ég gæti keypti nýtt mánaðarkort í lestarnar. Ég kíkti nottla í bókabúðina þar í leiðinni og keypti voða fína möppu og bók til að skrifa í til að hjálpa með skipulagið.
Ég er komin með Personnummer (kennitölu) eftir langa bið og á morgun hitti ég Liv til að skrifa undir leigusamninginn. Ég ætla svo að stofna reikning hjá PostBanken, eftir að hafa verið ráðlagt að fara þangað af samnemendum mínum, á morgun.
En í kvöld ætla ég að lesa um Lúther og Reformasjonen fyrir Salme oppgaven.
Ha en kjempe bra dag!

Thursday, September 18, 2008

Laufin falla

Heil og sæl. Ég ætla að skrifa hér nokkrar línur áður en ég opna skruddurnar. Ég kveið soldið fyrir deginum í dag því að ég vissi að ég þyrfti að skilja Fróða eftir heima því í dag var ég í Seminargruppe.
Ég drattaðist á lappir klukkan sex til að far með Fróða í labbitúr áður en ég færi í skólann. Ég labbaði aðeins aðra leið í skóginum en venjulega. Í ca 3 mínútna fjarlægð frá íbúðinni minni er skíðaskáli og lítil skíðabrekka og lyfta inni í skóginum. Þar sá ég lítinn rauðan ref með hvítan brodd neðst á halanum. Hann var afskaplega sætur og mjög forvitinn um mig og Fróða. Hann þorði samt ekki að koma of nálægt, heldur sat í skíðabrekkunni og fylgdist með okkur.


Ég var auðvitað ekki með myndavélina mína, hann hann var mjög svipaður þessum á myndinni hér að ofan.

Þegar ég kom heim úr skólanum stoppaði ég aftur á dýralæknastofunni, því ég ætlaði að hitta á einn dýralækninn sem var afar hjálpleg í að ráðleggja mér með aðskilnaðarkvíðann hans Fróða. Hún gaf mér númerið hjá stelpu sem fer með hunda í labbitúr á meðan maður er að heiman, og ég ætla að athuga hvað hún tekur fyrir þetta. Ef það er ekki of dýrt gæti verið að ég nýti mér það á föstudögum þegar fróði þarf að vera lengst einn, eða frá 7:30-14:00.
Ég sagði henni frá því að Fróði fær svona aðskilnaðarkvíða nokkuð oft yfir daginn þegar við erum heima. Tungan fer að lafa, hann skelfur og geltir jafnvel og hleypur í hringi ef ég t.d. fer á klósettið eða fæ mér að borða. Hann vaktar hverja einustu hreyfingu og er mjög taugastrekktur. Þessi kvíðaköst vara í allt að 15 mínútur í hvert sinn og það er alveg hrikalegt að horfa uppá þetta og það er ekkert sem ég get gert til að róa hann.
Dýri ráðlagði mér að kaupa DAP ól sem hann hefur nú um hálsinn allan sólarhringinn í mánuð. Þetta eru svona róandi ferómón eins og hvolpar fá úr móðurmjólkinni.
Þegar ég kom heim í dag var Fróði furðu fljótur að róa sig eftir að ég kom heim. Ég smellti DAP ólinni strax á hann og hann hefur sofið síðan. En dagurinn í dag og á morgun munu skera úr um hvort þetta hafi tilætluð róandi áhrif fyrir litlu dúlluna mína.
Dýri benti mér svo á að það er hundagarður í göngufjarlægð frá mér í skóginum þar sem fólk leyfir hundunum sínum að hlaupa lausum og ég ætla að fara og finna hann um helgina.
Ég sá svo svona snilldar hundapoka sem ég bara VERÐ að eignast.
Þegar ég fer með Fróða í T bane og strætóana er oft svo troðið af fólki að ég verð að halda á honum, því annars mundi hann bara troðast undir. Það er ekkert létt að halda á þessari litlu bollu og þess vegna væri bara snilld að vera með svona á sér!
En í dag er nóg að gera. Ég þarf að gera verkefni fyrir norskutímann á morgun og lesa hellings helling í hinum ýmsu fögum.
Ég er svo að byrja á Kristendommshistorie verkefni sem á að skila 2. október. Þá á ég að velja mér sálm úr norsku sálmabókinni og fjalla um þann tíma þegar hann var skrifaður og Guðfræðina þá.
Haustið er afar fallegur tími hér í Osló. Það bókstaflega rignir laufum að allskyns stærðum og gerðum og litum inní skóginum og loftið úti er afar ferskt og hressandi. Ég ætla að muna eftir myndavélinni í næstu göngu.

Ha en god dag!

Wednesday, September 17, 2008

Læra, læra og læra aðeins meira

Gærdagurinn var fyrsti dagurinn hans Fróða í MF. Það gekk vonum framar. Litli kúturinn svaf af sér allan tíma, en hrökk svo ofsalega við þegar það kom hlé að hann gelti. Þá litu allir hundrað nemendurnir á mig og hlógu. Ég vildi helst hverfa ofan í gólfið, en Fróði kippti sér nú lítið upp við þessa athygli.
Áður en við Fróði fórum heim verslaði ég ýmislegt þarft. Þar á meðal voru blaðsíður fyrir nýtt námsár í filofaxið mitt, snúru til að tengja ipodinn við mac tölvuna mína - sem kostaði 2.000 krónur íslenskar takk fyrir. Ég kíkti svo í nokkrar dýrabúðir og keypti bein handa Fróða og fékk annað í kaupbæti því afgreiðslukonurnar voru svo hrifnar af honum. Ég verslaði svo helling í matinn í SPAR og keypti inneign á símann minn. Að lokum kíkti ég á dýralæknastofuna að kaupa fóður fyrir Fróða og athuga með að fá tíma fyrir hann útaf ofnæminu. Ég spjallaði við dýralækninn í afgreiðslunni sem ráðlagði mér frekar að kaupa ofnæmisfóður handa Fróða. Það var rándýrt, en þó ekki jafn dýrt og tími hjá dýralækni sem kostar 530 krónur norskar eða um 8.000 krónur íslenskar. Það er bara ráðgjöf, engin meðferð eða lyf tekin með í þessari tölu!!! Svo bannað að kvarta við mig ef ykkur finnst eitthvað dýrt á Íslandi eða þið fáið háan reikning frá dýra!
Í dag vaknaði ég eldsnemma og ég og Fróði fórum í skólann. Það var mjög áhugaverður fyrirlestur um Islam sem var mjög áhugaverður.
Ég er núna að læra og skipuleggja næstu daga, en ég er komin soldið eftirá í lestrinum þar sem ég er að sjálfsögðu mun lengur að lesa heldur en hinir og þarf sífellt að vera að fletta upp nýjum og nýjum orðum.
En orðaforðinn minn er að stækka og ég er töluvert fljótari að lesa núna en ég var.
Fjóla vinkona kemur í heimsókn 30. október, eða á 3ja ára afmælisdeginum hans Fróða míns og verður hér yfir helgina, eða til 3. nóv. Kristín kemur kannski líka, eftir því hvort hún getur látið það ganga varðandi skólann. Ég er himinlifandi að Fjóla kemur allavegana og hlakka ekkert smá til.
JIBBÝ!!!

Monday, September 15, 2008

Myndir!!!

Í dag var heldur einmannalegur dagur. Ég gerði ekkert annað en að læra og þess á milli fara út með Fróða. Á morgun eru fyrirlestrar og ég er hálfkvíðin að fara með Fróða, en ég vona það gangi bara vel. Hann er búinn að vera soldið slæmur af kvíðanum, var svaka stressaður í dag og hélt alltaf að ég væri á leiðinni út, frá honum. Hann er líka frekar slæmur í húðinni og ég þarf að kíkja til læknis með hann sem fyrst. Ég vona það kosti ekki of mikið.

Þetta græna þarna á gólfinu er dýnan sem við blésum upp, en Fróði vildi frekar vera á rúminu mínu.

Blokkin mín og blokkin við hliðina á. Takið eftir stiganum á hægri hlið vinstri blokkarinnar. Maður þarf að vera í ágætisformi til að príla þetta á hverjum degi.

Ég og Fróði minn í skóginum þar sem við löbbum á hverjum degi.

Ég með músina mína.
Við rákumst á þetta hrikalega skógarskrímsli og festum það á filmu.

Hmmm.... hvar eru Helga og Fróði????

Nei, ég vil ekki fara þessa leið mamma!

Niður við sjóinn.

Mjög falleg mynd af mér og nefinu hennar Höllu.

Halla og Fróði.

Fróði ætlaði aðeins að fá að gefa Höllu koss.

Hvar er Halla?

Skógardísin sem við hittum.

Fróði í laufinu, sjáið hvað varirnar og kinnarnar eru rauðar eftir að naga búrið sitt þegar hann er einn.

Í Noregi eru tréin aðeins hærri en heima.

Og nú ætla ég í háttinn!
God natt!



Sunday, September 14, 2008

Fín Helgi

Heil og sæl öllsömul. Þetta hefur verið ánægjuleg helgi hjá mér. Í gær kom Halla í heimsókn, eftir að ég hafði legið yfir bókunum mínum allan daginn milli þess sem ég þvoði sirka 30 kíló af þvotti. Halla kom færandi hendi með tvær kjúklingabringur. Við gerðum úr því ljúffengan rétt, sem heitir því frumlega nafni Camebert kjúklingaréttur. Halla ætlaði svo að taka lestina heim síðar um kvöldið, en þegar við komum á lestarstöðina hafði öllum lestarferðum verið aflýst ótímabundið. Svo við trítluðum bara heim til mín aftur og blésum lífi í vindsængina mína sem Halla svaf á síðustu nótt. Í dag fórum við langa göngu með Fróða í skóginum. Við skelltum okkur svo á bíó á Get Smart sem var svaka skemmtileg mynd. Nú er ég á leið í háttinn enda klukkan margt, en á morgun er lesdagur svo það er nóg að gera.
Ég ætla að enda á skemmtilegu myndbandi sem segir af fólki sem tók að sér ljónsunga sem það fór svo með aftur til Afríku þar sem það aðlagaðist ljónahóp. Fólkið fer svo og finnur ljónið aftur þrátt fyrir að vera ráðið gegn því þegar það er orðið leiðtogi hjarðar sinnar á sléttum Afríku.

Friday, September 12, 2008

Frábærar Fréttir!!!!

Ég hef alveg frábærar fréttir að færa. Fróði má koma með mér á fyrirlestrana í skólanum!!! Ég er svo glöð og þakklát. Nú þarf hann næstum ekkert að vera einn heima. Takk fyrir að biðja fyrir þessu með mér og takk Guð.
HALLELÚJA!!!

Thursday, September 11, 2008

Framfarir

Í gær hitti ég Höllu og við borðuðum saman hádegismat heima hjá mér áður en við tókum strætó niður í bæ. Þar kíktum við m.a. í Bok og Media sem er kristileg bókabúð og ég keypti svona merkimiða fyrir flottu norsku Biblíuna mína. Ég var bara í einum tíma í dag, en það gekk samt mjög vel. Ég er farin að skilja kennarana miklu betur byrjuð að tala norskuna miklu meira. Hvert einasta skref og hverja einustu stund er Guð með mér og vakir yfir mér og sér fyrir öllu. Það er alveg yndislegt hvernig Hann hefur haldið mér uppi síðustu daga og vikur.
Því miður var námsráðgjafinn minn ekki við í dag svo ég hef enn ekki fengið að vita hvort Fróði megi koma með mér í skólann. En ég hef ekki svo miklar áhyggjur, ég treysti Guði fyrir þessu, Hann hefur séð fyrir öllu öðru hingað til.

Tuesday, September 09, 2008

Ánægjulegur dagur

Dagurinn í dag var verulega ánægjulegur. Hann byrjaði reyndar ekkert svakalega ánægjulega. Fróði var alveg að fara yfir um af stressi og ég var svo utan við mig þegar ég fór út að ég gleymdi strætó passanum mínum. Ég þurfti þess vegna að borga í strætó og smygla mér í tvær T bane og lestina heim. Ég var sem betur fer ekki beðin um miða. Ég var svakalega ánægð þegar námsráðgjafinn sagðist ætla að kanna þetta með Fróða fyrir mig býð spennt eftir svari. Ég læt ykkur auðvitað vita um leið. Ég fékk svo að vita niðurstöðuna úr Bibelkurs prófinu mínu, en það var ekki gefin einkunn heldur annað hvort náðirðu eða ekki. Og ég náði!!! Ég var svakalega ánægð með það. Halla hringdi svo í mig og það var rosalega fínt að heyra í henni. Við ætlum að hittast um helgina og ég hlakka til.
Um sexleytið sótti ég Emilie á lestarstöðina. Ég hafði ekki tíma til að elda neitt handa okkur svo ég keypti bara kjúklingaleggi í spar og sallat með. Það var bara rosalega gott. Ég og Emilie spjölluðum allt kvöldið, til skiptis á norsku og ensku. Það var alveg æðislegt að fá hana í heimsókn og ég vona að við hittumst aftur sem fyrst.
Núna er klukkan að verða tólf hjá mér og ég ætla að koma mér í háttinn.
Góða nótt dúllurnar mínar.

Bað um leyfi til að hafa Fróða með í skólann

Ég var að spurja námsráðgjafann minn hvort ég mætti hafa Fróða með í skólann, því það mundi hjálpa með kvíðann. Hún ætlar að kanna málið en var mjög bjartsýn. Viljiði biðja fyrir þessu með mér.

Monday, September 08, 2008

Nóg að gera

Ég fór í skólann í dag með hrikalegan höfuðverk því mér gekk svo illa að sofna síðustu nótt. Kannski vegna þess að ég freistaðist til að horfa á Lethal Weapon í sjónvarpinu í gærkvöldi þegar ég ætlaði að fara að sofa. Ég þurfti bara að mæta í einn tvöfaldann tíma í dag og í hléinu fór ég og spjallaði við námsráðgjafa, því ég þurfti að skipta um verkefnahóp svo ég geti verið með í norskunámskeiðinu.
Kennarinn okkar í Kristendomshistorie, Oskar Skarsaune virkar bara ágætur. Það er allavega ekki svo erfitt að skilja hann miðað við Nýja testamentis kennarann.
Eftir að ég kom heim hef ég verið að lesa fyrir NT forelesning sem er á morgun. Það gengur alveg svakalega hægt hjá mér, enda er þetta mjög fræðilegt mál. Ég þarf án gríns að fletta öðru hvoru orði upp og samt skil ég ekki alltaf samhengið. Þannig þið getið ímyndað ykkur hversu hægt þetta gengur hjá mér. Þess á milli hef ég verið að taka aðeins til hérna því að Emilie kemur á morgun. Ég hef ákveðið að elda fyrir okkur kjúklingarétt sem var einn sá auðveldasti sem ég fann. Ekki það, ég gæti samt klúðrað honum.
Það er farið að kólna svoldið þessa dagana og eitthvað er ofninn hjá mér ekki að skila sínu því það er skítakuldi hérna. Sem betur fer hef ég Fróða til að hlýja mér, en hann er meira að segja hættur að vilja liggja á gólfinu!

Sunday, September 07, 2008

Letihelgi

Þetta hefur verið ansi letileg helgi hjá mér. Ef ekki væri fyrir Fróða hefði ég eflaust ekki stigið fæti út úr húsi alla helgina. Ég dröslaðist loks á lappir um hádegisbil í dag, eftir miklar fortölur. Mér til varnar hefur Fróði ekki verið hótinu betri. Ég var að reyna að finna útúr hvað á að lesa fyrir Kristendoms historie á morgun, en án árangur. Það er löng vika framundan, fyrirlestrar á hverjum degi og eflaust nóg að lesa. Ég er ekki alveg laus við kvíða, ekki síst vegna þess að Fróði minn þarf að vera einn heima.
Ég ætla að lesa smá Joyce Meyer áður en Ekstrem oppussing USA byrjar (þið megið geta hvaða þáttur það er)

P.S. Ég hringdi í Emilie sem var með mér á Biblíuskólanum og hún kemur í mat til mín á þriðjudagskvöldið.

Friday, September 05, 2008

Helgarfrí!!!

Ég mætti í norskutíma í morgun og það gekk alveg rosalega vel. Kennarinn var mjög fínn og hún var svaka hrifin að ég væri frá Íslandi. Ég stóð eflaust best að vígi í þessum hóp, en með mér voru 3 stelpur frá þýskalandi, ein frá Suður Afríku, ein frá New York, ein frá Rússlandi og svo strákur sem kom frá Tékklandi.
Ég þurfti að fara fyr úr tímanum því að prófið byrjaði korter yfir 12. Þegar ég mætti fyrir framan stofuna mína hafði myndast löng röð nemenda sem voru að fara í prófið. Ég þurfti að sýna skilríki, kvitta mig inn og út og í prófinu skrifaði ég á pappír sem var í þríriti. Ekkert smá formlegt, mér leið eins og ég væri að fara að taka stúdentspróf! Það voru margir rosa stressaðir, en ég var alls ekkert að farast. Prófið gekk bara mjög vel, að mér fannst. Ég veit nottla ekki hversu nákvæmur kennarinn er en ég vona að ég fái sæmilega einkunn. Ég er allavega ekki smeik við að falla á því og dauðfegin að vera búin að þessu!!! Ég var vakandi til 3 í gærkvöldi að læra og vaknaði kl. 7 til að halda áfram að lesa. En nú er komin helgi og næsta vika veruð vel pökkuð af fyrirlestrum og eflaust nóg að gera. Eftir prófið fór ég á lestarstöðin í Majorstuen og hitti Ástu Haralds. Hún var með þrennar buxur til mín frá múttu þar sem mínar voru orðnar of stórar. Takk mamma xxxxx

Helgin verður bara afslöppun. Ég er reyndar að spá í að kíkja aðeins í bæinn á morgun, bara svona mér til gamans.
Það hefur einhver tekið niður auglýsinguna mína fyrir Fróða pössun hér í blokkinni, svo ég ætla að útbúa nýja á morgun og setja mynd með.
Ég er núna alveg búin á því er að glápa á imbann og njóta þess. Mér tókst reyndar að brenna mig á míní steikarofninum mínum áðan svo baugfingur vinstri handar er í klakabaði.
Ha de bra!

Thursday, September 04, 2008

I´m....reading...in the rain!!!

Jæja, lesturinn heldur áfram. Ég er komin í Matteusarguðspjall núna svo þetta er að koma, vonandi. Ég verð bara að fara yfir postulasöguna og Fyrra Korintubréf á einhverju hundavaði. Hér rignir og rignir, ég hef sjaldan séð annað eins. Það er komið lítið haf á rauðu stéttina fyrir framan hjá mér, sem ég kýs að kalla Rauða Hafið.
Ég og Fróði gátum ekki farið hringinn okkar í skóginum því að göngustígurinn hafði breyst í leðju og djúpur pollur hafði myndast á göngubrúnni. Þetta er bara einsog Nóaflóðið hérna.
Eins og þið hafið kannski tekið eftir hef ég gefið blogginu mínu smá facelift, í von um að þið verðið þá enn duglegri að lesa það ;)
Á morgun fer ég í norskutíma og þaðan beint í prófið. Eftir prófið hitti ég Ástu Haralds á Majorstuen T banastöðinni því hún er með dót handa mér frá mömmu. Svo er það beint aftur í tíma áður en ég er komin í helgarfrí.
Það er engin lausn komin enn varðandi Fróða, en það er svo sannarlega bænarefni að biðja fyrir því, í næstu viku er ég í skólanum alla dagana.
Ég sakna ykkar allra alveg hrikalega, en ég hef sem betur fer ekki haft mikinn tíma til að hugsa um það. Hafið það gott á klakanum!

Wednesday, September 03, 2008

Lestrardagurinn mikli

Ég er búin að lesa í allan dag og það sér varla högg á vatni. Ég vona bara að ég nái að fara yfir allt þetta efni fyrir föstudaginn. Fróði ákvað að vera varðhundur í dag og láta mig vita í hvert sinn sem einhver labbaði framhjá glugganum mínum. Hann fékk þó ekki þau laun sem hann hafði eflaust vonast eftir fyrir þessa vinnu.

Fróði hefur haft það náðugt í dag. Honum var soldið kallt eftir baðið sem ég skellti honum í í morgun svo ég bjó vel um hann í rúminu mínu.

Svo brá hann á smá leik og ég smellti þessari mynd af honum

Ég heyrði svo í Höllu Marie í dag á MSN. Hún er að koma til Noregs á mánudag og verður hér fram að jólum. Hún mun búa í Trollåsen sem er ca hálfa leið til Ski þar sem Klara og Sævar búa, s.s. bara svona 10 mínútur með lest, sem er bara æði.
Ég ætla að halda áfram með lesturinn, en fleygi inn færslu fljótlega.

Tuesday, September 02, 2008

Góður dagur hjá mér, slæmur hjá Fróða

Ég fór í skólann í dag og náði þar tali af Claudiu sem er námsráðgjafi. Ég sagði henni frá því sem fór á milli mín og alþjóðlega námsráðgjafans og áhyggjur mínar varðandi tungumálanámskeiðið. Hún sagði mér að hafa ekki áhyggjur, þetta væri eldri þýsk dama sem væri mjög nákvæm og hefði þegar of mikið af verkefnum á sínu borði. Hún sagði jafnframt að hún og allir vildu gera allt sem til þyrfti svo ég gæti komist í gegnum þennan erfiða tíma í skólanum. Hún var mjög vingjarnleg og mér leið miklu betur eftir að tala við hana. Ég fór svo á bókasafnið og prentaði út eldri próf til að undirbúa mig undir prófið á föstudag. Ég tékkaði líka á póstinum mínum, en þá hafði Alþjóðlegi námsráðgjafinn svarað og sagði mér að ég mætti taka þátt í norskunámskeiðinu. Ég rakst á þýsku vinkonu mína á safninu, en við ákváðum að vera samferða í norskunámskeiðið á föstudag. Hún er alveg að drukkna í fyrirlestrum og bókum sem hún þarf að lesa.
Þegar ég kom heim beið mín ófögur sjón. Fróði hafði nagað stóran hluta úr dyrakarminum í litla plássinu sem hann var lokaður inní.
Hann var búinn að naga og æla í bælið sitt til skiptist svo ég þurfti að þrífa bælið hans líka og hreinsa helling af sagi af gólfinu.
Þið getið séð myndir af skemmdunum á myndasíðunni minni.

Ég gerði ekki neitt, mamma. Alveg satt!

Þetta var allavega versta aðkoman hingað til og nú verð ég að finna einhverja lausn sem fyrst. Enginn hefur haft samband af þeim þrem sem hafa tekið númerið mitt og netfang af auglýsingunni minni.
Guð hlýtur að hafa einhverja lausn á þessu, kannski þarf ég bara að sækja um undanþágu svo ég geti haft hann með mér í skólann, ef það er þá mögulegt.

Monday, September 01, 2008

Ömurlegur dagur

Í dag hafði ég samband við tengiliðinn fyrir alþjóðlega nemendur í MF. Ég sagði henni að mér hefði ekki tekist að finna skólastofuna sem prófið væri haldið í og enginn getað hjálpað mér. Hún var svartsýn að ég gæti fengið að taka þátt í norskunámskeiðinu vegna þessa. Þetta olli mér miklum áhyggjum svo ég sendi henni mail til að undirstrika mikilvægi þess fyrir mig að fá að vera með í þessu norsku námskeiði. Hún misskildi meilið illilega og leit á það sem einhverskonar persónuárás af einhverjum ástæðum og var vægast sagt harðorð þegar hún svaraði mér. Benti mér meðal annars á að ég hefði ekkert erindi að vera í almennu Guðfræðinámi í MF þar sem ég talaði ekki norsku. Ég er gjörsamlega miður mín yfir þessu og sendi henni mail þar sem ég útskýrði að meiningin hefði alls ekki verið að gagnrýna einn eða neinn.
Þetta eyðilagði fyrir mér restina af deginum og ég hef ekki haft eirð í mér til að læra sem ég þarf þó nauðsynlega að gera, því ég er komin svo stutt á leið í Biblíulestrinum og prófið er á föstudag.
Mér líður alveg hrikalega og veit ekki hvað ég á af mér að gera.
Á morgun ætla ég að mæta í skólann og reyna að ná tali af þessari manneskju og leiðrétta þennan hræðilega misskylning.
Þetta verður að teljast að minnsta kosti næstversti dagurinn minn hér úti.