Í dag trítlaði ég uppá dýralæknastofuna í rigningunni með Fróða þar sem hann var búinn að klára 2ja kílóa Hills pokann sem ég keypti fyrir hann þegar við komum til Noregs. Þar með hófust ævintýri dagsins. Á dýralæknastofunni bað ég þá að geyma pokann fyrir mig þar sem kortið mitt virkaði ekki. Því næst labbaði ég til Hauketo sem er næsti bær við Nordstrand. Á leiðinni prófaði ég að setja kortið mitt í hraðbanka en gat ekki tekið út. Ég kíkti svo inní Hundabúðina Din Beste Venn og keypti blautmat fyrir Fróða til bráðabigða ef ég hefði ekki strax efni á þurrmatnum. Ég fór svo á lestarstöðina á Hauketo og tók lestina niður í járnbrautarstöðina í Oslo. Þar prófaði ég kortið í 5 mismunandi hraðbönkum án árangurs. Ég var farin að örvænta nokkuð og ég og Fróði orðin þreytt og sársvöng. Það átti að vera búið að opna fyrir kortið svo þetta leit fremur illa út. Ég átti erfitt með að vera róleg og treysta Guði, en að sjálfsögðu hefði ég átt að gera það. Í sjötta hraðbankanum gat ég tekið út 600 kr. sem bjargar mér alveg í bili. Guði sé lof fyrir það.
Ég fór því beint í SPAR, matvörubúðina rétt hjá mér og keypti fulla körfu af mat handa mér áður en ég fór og keypti matinn handa Fróða.
Ég tróð mig því út af Lasagna og káli á meðan Fróði gleypti blautmatinn næstum í einum bita.
Í kvöld ætla ég að reyna að vera dugleg að lesa fyrir prófið. Á morgun þarf ég svo að finna lausn á því hvernig ég get komið kössunum mínum á pósthúsinu í Nordstrand heim til mín.
Guð blessi ykkur og gefi ykkur góðan dag.
No comments:
Post a Comment