Thursday, December 27, 2007

Annar í jólum


Í dag vaknaði ég snemma og fór í vinnuna. Ég var að vonast eftir rólegum, áreynslulitlum vinnudegi, þar sem ég var ekki viss hvernig mikil vinna færi með bakið á mér. Mér varð ekki að ósk minni, þar sem ég þurfti að vera stanslaust að til klukkan tvö um daginn. Þá var ég alveg búin, en ég átti að vinna til fjögur. Þegar kvöldvaktin mætti á svæðið sá hún aumur á mér, svo ég fékk að fara heim korter yfir tvö. Þá fór ég í stutta göngu með Fjólu í jólasnjónum, sem var bara gaman. Svo fórum við fjölskyldan að heilsa uppá Hafdísi í nýju vistarverunum hennar. Hún leit miklu betur út en síðast. Komin með hár, að vísu öðruvísi á litinn en áður, þ.e. dökkbrúnt og grásprengt. En það var hár engu að síður. Hún sat í hjólastól, en hún gat einungis hreift hendurnar lítillega. Að öðru leiti er hún alveg lömuð. Hafdísi þótti afskaplega gaman að fá okkur og það var líka gaman að sjá hana svona hressari. Við komum svo ekki heim á Ósabakkann fyrr en hálfsex, en þau var klukkutími í hangikjötið og heimalagaða ísinn. Hvorutveggja var algert lostæti og ég át hressilega yfir mig. Eftir matinn spiluðum við Party og Co. Þetta er rosa skemmtilegt spil og við skiptum okkur upp í lið og spiluðum það tvisvar. Í fyrra skiptið vann ég, mamma og pabbi og í það seinna ég Gísli og María (eruð þið farin að sjá munstrið hérna?).
Núna eru Gísli og María að horfa á imbann og ég sit hér að ákveða hvað ég ætli að gera næst. Ég er að vinna aftur á morgun, í þetta sinn frá hálffjögur til hálftólf.
Það var eitt soldið fyndið með jólagjafirnar sem ég fékk. Ég var rosalega ánægð með þær allar, en ég fékk fullt af frábærum gjöfum, bara allt aðrar en þá sem ég bað um. Ég bað nebbla um myndavél og fékk hana ekki. Ég er ekki að reyna að láta ykkur vorkenna mér eða hljóma eins og vanþakklátur krakki, bara að segja frá þessu því mér finnst þetta soldið skondið. Þess vegna hef ég nú ákveðið að festa kaup á vél þegar ég fæ útborgað á föstudag. Eftir mikla eftirgrennslan, verð- og gæðasamanburð hef ég tekið ákvörðun. Fujifilm FinePix F50 verður fyrir valinu.
FinePix F50 byggir á styrk F30 og F31 sem komu á undan og bætir við enn fleiri kostum. Meðal annars má nefna að F50 er 12M díla, sem er meira en flestir þurfa. Hún er með andlitskennslum 2.0 ("Facedetection 2.0") sem þekkir nú orðið andlit á hlið og kant. Tækni sem gerir alla sem taka myndir af mannfólki og mannabörnum að betri ljósmyndurum. F50 er komin með tvöfaldri hristivörn, bæði flögufærslu ("CCD Shift") og háhraða töku með óvenjumiklu ljósnæmi. Að auki er FinePix F50 með "No Redeye" tækni, s.s. engin rauð augu!

Sú vél kom best út varðandi verð og gæði, en hún er 15.000 krónum ódýrari en Canon Ixus 960 vélin sem ég hafði augastað á, en hefur alla sömu fítusana og er m.a. jafnmörg megapixl. Vélin kostar 34.900 og fæst í ljósmyndavörum, Skipholti.
Ég get núna ekki beðið eftir að fá útborgað og kaupa vélina á föstudag og taka hana strax í notkun!
Ég ætla núna að kíkja á imbann, eða glugga í bók og fara svo í háttinn.
Góða nótt elskurnar mínar og sofið rótt í alla nótt!

1 comment:

Anonymous said...

Ótrúlega flott verður æði þegar þú verður komin með nýja myndavél líka getum þá báðar verið að smella af :D

Kveðja Kristín, Sóldís og Aris