Thursday, December 13, 2007

11 dagar til jóla


Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.
Ég átti langþráð frí í dag og skellti mér að sjálfsögðu í góða göngu í Heiðmörk með Fjólu og Kristínu. Ég fór svo í bað heima hjá mömmu og pabba þar sem sturtan heima hjá mér er eitthvað biluð. Ég ætlaði reyndar ekki að komast uppúr baðin þar sem það var svo hrikalega notalegt að liggja bara þarna með kertaljós og hlusta á jólalög. Ég skreið þó uppúr kerinu á endanum til að skella mér í bíó með Davíð og Fjólu á Bee Movie. Þvílík snilldarmynd sem það var, alveg mögnuð! Við fórum í Kringlubíó og það var hálfundarleg tilfinning þegar við komum útúr bíóinu og allar búðirnar enn opnar. En það eru víst að koma jól.
Á morgun fer ég til mömmu að baka smákökur. Ég ælta reyndar líka að hringja í MF skólann og athuga hvernig ég á að sækja þar um. Ég var að átta mig á því að það er aðeins rétt rúmlega hálft ár þangað til ég fer út, ef eitthvað verður af þessum plönum. Ég er mjög spennt, en líka með stóran hnút í maganum yfir þessu öllu saman. Hvernig á ég að geta farið frá fjölskyldu og vinum í allan þennan tíma? Og svo er það málið með hundana. Ég get ekki hugsað mér að Fróði þurfi að fara í einangrun þegar ég kem heim aftur, auk þess sem ég veit ekki hvernig hann mun þola breytingarnar. Ég verð allavega að reyna að ná þessum aðskilnaðarkvíða úr honum áður en ég fer. Svo er það Trítla. Mamma er alveg á því að ég eigi bara að taka Fróða með mér og Trítla eigi að fara í fóstur til systur minnar í Danmörku. Það sé of mikið fyrir mig að vera ein með þau bæði. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst. Það er sjálfsagt erfiðara að finna húsnæði með tvo hunda heldur en einn og Trítla nýtur sín nú ekki sérlega í Fróða félagskap. Finnst hún svo bæld eitthvað. Ég veit alls ekki hvað ég á að gera og bið ykkur endilega að biðja fyrir þessu.
Annars var mamma að tala við vinkonu sína og ætlar að tala við einhverja sem þekkja til í Osló til að athuga með húsnæði fyrir mig. Mér líður næstum einsog áhorfandi í þessu öllu saman og held þetta verði ekkert raunverulegt fyrir mér fyrr en mér er ýtt á sviðið undir lokin. Það er þó enn ætlunin að fara út eftir áramót og skoða skólann, þá verður þetta eflaust aðeins áþreifanlegra. Ég vona bara og bið að Guð gefi mér fljótt góða vini þarna úti. Ég óttast mjög að vera alein. Ég hef ákveðið að byrja að biðja Guð um að gefa mér gott húsnæði úti. Helst í kjallaranum hjá eldri konu sem myndi passa Fróða fyrir mig á daginn. Ég ætla líka að biðja Hann að finna handa mér góða vini. Ég ætla að enda þetta í dag með því að leggja allt í Hans hendur og bið Hann líka að blessa ykkur og gefa ykkur góða hvíld í nótt.

1 comment:

Fjóla Dögg said...

Oh elsku Helga mín. Ég og davíð munum biðja fyrir þessu öllu saman. Ég held það sé einmitt gott að biðja Guð um góða vini og þá er ég líka ða hugsa um mig þegar ég fer út í þessa 2 mánuði vegna þess að ég á mjög erfitt með að eignast vini og veit að ég á eftir að draga mig rosalega mikið til hlés og vera bara ein þannig að ég ætla að biðja fyrir því sama fyrir mig.
Takk fyrir gærdaginn ógeðslega gaman á myndini þvílík snild.
Sjáumst vonandi í dag annars um helgina.

Kv Fjóla og Moli